132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skólafatnaður.

441. mál
[14:25]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að vekja máls á þessu máli. Ég saknaði þess dálítið í svari hæstv. menntamálaráðherra þegar hún vísaði í niðurstöður og úttektir sem hefðu verið gerðar á kostum og göllum skólabúninga, að hún lýsti þeim örlítið þannig að við fengjum einhverja mynd af þeim upplýsingum sem hún er með og vísar í.

En varðandi skólabúninga þá vil ég koma inn á það hér í þessum stutta tíma sem ég hef, að efnamunur barna í skólum birtist ekki bara í fatnaði heldur líka í skólagögnum, þ.e. skólatöskum og öðrum fylgigögnum sem börnin eru með í skóla. Það er því að mörgu að huga í þeim efnum og getur verið gríðarlegur munur þar á líka. Ég vildi koma því að hér líka. Það eru ekki bara skólabúningarnir sem er um að ræða heldur einnig gögnin.