132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skólafatnaður.

441. mál
[14:30]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Aldrei þessu vant get ég verið sammála hæstv. menntamálaráðherra og er ástæða til að koma upp þess vegna. Ég held að málið sé ágætt en það sé mjög misskilin jafnaðarmennska að allir þurfi að vera eins í skólanum. Ég held að við þurfum að taka á þessari merkjaáráttu og merkjadýrkun á annan hátt. Auðvitað á það að vera heimilt í einstaka skólum, ef vilji er fyrir því hjá foreldrum og nemendum og skólastjórnendum, að taka upp skólabúninga en ég held að það væri skref aftur á bak að fara í sömu spor og Bretland þar sem allir eru í eins búningum. Ég held að þetta sé merki um dálitla forsjárhyggju og samræmdar reglur finnst mér fullkomlega út í hött í þessu máli. Ég held reyndar líka að íslensk fatahönnun hafi verið einmitt blómleg vegna þess að (Forseti hringir.) fólk gengur í mismunandi fötum.