132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skólafatnaður.

441. mál
[14:33]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég held að sveitarfélögin hafi sýnt það og sannað að þau standa sig vel varðandi rekstur grunnskólans. Þar er mikið hugmyndaflæði og nýjar hugmyndir fá að brjótast fram með mismunandi hætti innan sveitarfélaganna og það erum við að sjá. Við sjáum mismunandi skólastefnu milli sveitarfélaga. Ef við lítum á suðvesturhornið, ég ætla ekkert að fara út í einkaskólana en ef við lítum á opinberu skólana þá sér maður mismunandi áherslur á milli skólasamfélaga bara á þessu litla landshorni og ég held að það sé jákvætt. Þess vegna vil ég alls ekki taka fram fyrir hendurnar á sveitarfélögunum en oft hefur nú verið talað úr þessu ræðupúlti um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga varðandi grunnskólann. Það sem sveitarfélögin hvert fyrir sig eiga að skoða og hugsa um er hvernig umhverfi þeirra er því að umhverfið er svo misjafnt á Íslandi. Við vitum vel að eitt gildir kannski um Reykjavík og annað um norðausturhornið þannig að hvert og eitt sveitarfélag verður að greina þarfir sínar og meta út frá því.

Síðan má líka kannski leika sér að því að það er ekki alltaf svo að samræmdir búningar skili sér. Ég veit ekki betur en að hér í þingsal eigi allir herramenn að vera með bindi en sumir segja eigi að síður að það sé nokkuð mikið einelti í því.