132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Sameining opinberra háskóla.

442. mál
[14:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um sameiningu opinberra háskóla.

1. Hvernig standa áætlanir um sameiningu opinberra háskóla?

2. Liggur fyrir mat á því hvaða skóla er hagkvæmt að sameina með tilliti til náms og rekstrarlegra forsendna?

3. Hafa allir sameiningarkostir verið skoðaðir?

4. Hvaða opinberu háskóla stendur til að sameina?

Af og til hefur umræða um sameiningu opinberra háskóla komið upp og á fullan rétt á sér að mínu mati, ég hef alltaf verið frekar hlynntur því að kostir sameiningar sumra opinberra háskóla séu skoðaðir og þeir vegnir og metnir. Fyrir nokkrum missirum varpaði Ólafur Proppe, rektor Kennaraháskóla Íslands, fram þeirri hugmynd í útskriftarræðu yfir nemendum sínum að sameina ætti alla ríkisháskólana undir eitt merki, einhvers konar regnhlíf þar sem skólar og deildir héldu verulegu sjálfstæði sínu undir merki Háskóla Íslands, eins og hann setti þetta fram.

Undir þessar hugmyndir tók Páll Skúlason, þáverandi rektor Háskóla Íslands, og taldi nauðsynlegt að skoða þessar hugmyndir mjög gaumgæfilega. Að sjálfsögðu er mikilvægt við slíkan samruna að halda fjölbreyttu og aðgengilegu námsframboði samhliða hagrænum áhrifum í stjórnsýslu skólanna. Slíkri sameiningu gætu að sjálfsögðu fylgt margir kostir og gæti orðið til að efla námið verulega en þó er það ekki endilega víst. Sjálfstæði skólanna getur verið mikil auðlind líka, eins og bent hefur verið á í sambandi við skólann á Hólum, Háskólann á Akureyri og fleiri skóla sem bókstaflega hafa blómstrað af því að þeir hafi haft sjálfstæði til að gera það, þeir búa við töluvert sjálfstæði og hafa náð að mörgu leyti frábærum árangri þrátt fyrir mjög þröng efni og lág framlög, sérstaklega á síðustu missirum. En fámenni getur líka verið veikleiki skólastigsins þegar til lengri tíma er litið. Það geta komið fram vel rökstuddar hugmyndir eins og fram komu frá rektorum þessara tveggja ríkisháskóla, Háskóla Íslands og Kennaraháskólans, um að sameina viðkomandi skóla og skoða jafnvel í leiðinni kosti og galla við sameiningu allra ríkisháskólanna og taka svo afstöðu til þess að lokum hvaða skóla eigi að sameina ef þá nokkra.

Ég beindi fyrir nokkrum missirum fyrirspurn í svipaða veru til þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Tómasar Inga Olrichs, og þá var ekki nein slík sameining í undirbúningi eða skoðun á vegum stjórnvalda. Síðan eru liðin nokkur ár og umræðan hefur þróast töluvert og skólastigið þróast enn þá meira. Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvort hún hafi uppi fyrirætlanir um sameiningu opinberra háskóla, hvað liggi því til grundvallar og hvort slíkt mat liggi fyrir og hafi farið fram. Ég held taka þurfi þá umræðu mjög reglubundið af því að þróunin er ör og við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir kostum og göllum slíkrar sameiningar.