132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Sameining opinberra háskóla.

442. mál
[14:47]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mér verður alltaf hálfillt þegar ég heyri hv. þingmenn spyrja hvort 300 þús. manna þjóð hafi efni á því að reka átta háskóla. Spurningin sem þingmenn þurfa að hafa í huga, vakandi og sofandi, er hvort íslensk þjóð hafi efni á því að eiga jafnfáa háskólamenntaða borgara og staðreyndin er í dag, og jafnmikið af lítt skólagengnu fólki á besta aldri úti á vinnumarkaðnum.

Í dag er 17% munur á fjölda háskólamenntaðra á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Það sem hæstv. menntamálaráðherra þarf að gera er að bæta aðstöðu fólks á landsbyggðinni til að stunda háskólanám.