132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Sameining opinberra háskóla.

442. mál
[14:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að vinna við sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands sé vel á veg komin ef marka má svör menntamálaráðherra í þá veru og tel að slíkur sameiningarkostur komi mjög vel til greina. Ég hef kallað eftir því, og gerði við umræðuna hér í fyrra um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands, að allir kostir til sameiningar verði skoðaðir. Svo tel ég mjög mikilvægt að færa alla skólana undir eitt og sama ráðuneytið, undir menntamálaráðuneytið, færa skólana sem núna heyra undir landbúnaðarráðuneytið til menntamálaráðuneytisins. Það er fáránlegt að aðskilja þá tvo skóla löngu eftir að aðrir fagskólar eru komnir undir menntamálaráðuneytið, skólar sem áður höfðu heyrt undir iðnaðarráðuneytið eða sjávarútvegsráðuneytið. Það er fáránlegt að vera með einhvern mini-menntamálaráðherra í landbúnaðarráðuneytinu sem stendur sig ekkert í stykkinu í þá veru. Þetta á að sjálfsögðu allt að vera undir sama ráðherranum, sama ráðuneytinu og hefur dagað einhvern veginn mjög undarlega uppi í landbúnaðarráðuneytinu í þessari tvískiptingu.

En eins og ég segi, ég fagna því að vinna við sameiningu þessara skóla sé í gangi. Ég held að það sé góður kostur og komi til með að styrkja starfsemi þeirra beggja, og ekki síst kennaramenntunarinnar. Ég held að það geti styrkt hana stórum og sé ágætur áfangi í þá veru að efla kennaramenntunina og breyta henni og bæta. Til stendur væntanlega að lengja hana og breyta henni ef marka má umræðu síðustu ára um kennaramenntunina. Um leið tel ég sjálfsagt mál að skoða alla kosti til sameiningar þó svo að mér finnist sjálfum að Háskólinn á Akureyri eigi að standa áfram stakur, vera til sem slíkur og starfa sem sjálfstæður háskóli norður á Akureyri. Ég held að það sjálfstæði standi að baki velgengni skólans af því að, eins og ég áður sagði, ekki hafa það verið vegleg fjárframlög frá hinu opinbera þar sem skólinn á núna í miklum fjárhagserfiðleikum.