132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Sameining opinberra háskóla.

442. mál
[14:51]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég hvet hv. þingmenn til að fylgjast með þeim tölum sem koma varðandi háskólastigið. Við erum að útskrifa núna flesta háskólamenntaða á aldrinum 30–34 ára, við stöndum okkur gríðarlega vel í þeim aldurshópi sem við ætluðum okkur að ná til en að sjálfsögðu ef við tökum aldursbilið upp til 68 ára eða 75 ára erum við hlutfallslega með ekki nægilega marga háskólamenntaða. Við náum unga fólkinu okkar inn í háskólana og við náum að útskrifa það úr háskólunum. Það er ekki bara mikilvægt að innrita, heldur líka að útskrifa.

Það er rétt að taka fram að ekki kemur til greina af minni hálfu að þvinga fram sameiningu. Ég hef greint þennan vilja hjá rektorum beggja háskóla og þá taldi ég rétt að grípa gæsina, fara gaumgæfilega yfir þetta mál og sjá þá hagræðingu sem hugsanlega kann að fylgja slíkri sameiningu. Þá er ég ekki eingöngu að hugsa rekstrarlega, því að góður rekstur kemur að sjálfsögðu til með að skila enn betra innra starfi sem ytra, heldur er ég ekki síður að hugsa um þau áhrif sem slíkur samrekstur getur haft á gæði kennslunnar.

Menn styðja samkeppni og ég fagna því sérstaklega að menn skuli ræða hana á þessum forsendum. Samkeppni er af hinu góða því að við sjáum — hvað sjáum við hér í ljósi samkeppninnar? Við sjáum aukna samvinnu á milli skólanna, á milli háskóla sem eru í gríðarlegri samkeppni, eins og t.d. Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands, en við sjáum jafnframt aukna samvinnu á milli þessara skóla. Slík samvinna hefði náttúrlega ekki verið möguleg nema af því að við fórum af stað markvisst með því að ýta undir námsframboð í gegnum samkeppni. Það er rétt að taka það fram sem ég hef oft sagt hér áður að ekki voru allir flokkar tilbúnir til að fara út í að fjölga námsleiðunum, fjölga tækifærunum í gegnum samkeppnisleiðina því að menn töldu það skerða tækifæri til háskólanáms. Það hefur sýnt sig að svo er ekki. Við höfum fjölgað tækifærunum, fjölgað nemendunum (Forseti hringir.) og síðast en (Forseti hringir.) ekki síst stóraukið fjármagn til háskóla.