132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Vasapeningar öryrkja.

324. mál
[14:57]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir beinir til mín fyrirspurn um hvort áformað sé að taka upp aldurstengda hækkun eða uppbót á vasapeningum öryrkja sem dveljast á stofnunum.

Til að hægt sé að svara spurningunni verður að finna út hvað átt er við með öryrkjum sem dveljast á stofnunum. Á stofnunum sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið eru sjúklingar sem dvelja á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum. Þessir sjúklingar geta verið örorkulífeyrisþegar og ef þeir dvelja lengri tíma á sjúkrahúsi eða hjúkrunarheimili falla niður örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins en í stað þeirra greiðir stofnunin mánaðarlegt ráðstöfunarfé, svokallaða vasapeninga. Á sjúkrahúsum eru sjúklingar eða öryrkjar á öllum aldri og á hjúkrunarheimilum geta verið sjúklingar eða öryrkjar yngri en 67 ára en síðarnefndi hópurinn er lítill. Erfitt er að afmarka þann hóp sem spurt er um en ég mun reyna að svara fyrirspurninni eins og hægt er.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir vasapeninga til sjúklinga sem dvelja í lengri tíma á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum. Ég hef ekki áform um að greiða aldurstengda uppbót á vasapeninga. Ég hef áður greint frá því að ég telji koma til álita að endurskoða fyrirkomulag á greiðslum fyrir stofnanir fyrir aldraðra og vasapeningagreiðslur Tryggingastofnunar til þeirra. Sama gildir auðvitað um þá öryrkja sem eru yngri en 67 ára og dvelja langdvölum á sjúkrahúsum eða á hjúkrunarheimilum og fá greidda vasapeninga.

Fyrirspurninni er því svarað á þann hátt að ekki eru uppi áform um að taka upp aldurstengda hækkun eða uppbót á vasapeninga frá Tryggingastofnun ríkisins en þessi atriði mundu koma til skoðunar ef fyrirkomulag greiðslu við langtímastofnanavist aldraðra og öryrkja yrði endurskoðað. Það má bæta við að sú endurskoðun er reyndar komin í gang í samstarfsnefnd sem hefur nýlega hafið störf um málefni aldraðra og reikna má með því að niðurstaða hennar gildi um öryrkja einnig.