132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Hjúkrunarþjónusta við aldraða.

423. mál
[15:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og minni á það sem kom fram í samtölum mínum við forstöðumenn þeirra hjúkrunarheimila sem ég talaði við, að fólki sem ekki getur búið með sínu nánasta og er orðið veikt, eins og öldruðum hjónum, hrakar hraðar, bæði þeim einstaklingi sem er kominn inn á hjúkrunarstofnunina og þeim sem bíður. Það er líka heilbrigðismál að leyfa fólki að vera saman, undir sama þaki, síðustu æviárin.

Auðvitað vitum við að ýmis hjúkrunarheimili eru rekin í tengslum við íbúðir fyrir aldraða. Það leysir vanda margra og geri ég ráð fyrir því að þessi 89 pör sem hæstv. ráðherra nefndi búi við slíkar aðstæður. Níu pör, níu hjón, sem eru vistuð hvort á sínum staðnum eru níu hjónum of mikið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka á þessu og reyna að tryggja að ef báðir eru orðnir heilsulausir geti báðir verið saman á hjúkrunarheimili, á sama heimilinu. Þetta er vandi höfuðborgarsvæðisins vegna þess að hér er skortur á hjúkrunarheimilum mikill og biðin löng. Það er alveg ljóst.

Í ljósi þess að 38 einstaklingar bíða eftir því að komast inn á hjúkrunarstofnun þar sem makinn er fyrir óska ég hér með eftir því að hæstv. ráðherra taki sérstaklega á þessum vanda og setji einhverjar reglur í þá veru að þetta fólk fari í forgang inni á þeim heimilum þar sem maki þess dvelur. Það er oft þannig að þegar einstaklingurinn er orðinn veikur heima á biðlista hefur hann ekki einu sinni heilsu til að heimsækja sinn nánasta á hjúkrunarheimili. Þannig er staðan hjá þessu fólki sem ég vitnaði til áðan.