132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Hjúkrunarþjónusta við aldraða.

423. mál
[15:21]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins endurtaka það sem ég tók fram í svari mínu við fyrirspurn hv. þingmanns. Það geta auðvitað verið mjög mismunandi aðstæður hjá hjónum eða sambýlisfólki sem þarf pláss á öldrunarheimilum. Ég tel t.d. að þjónustuíbúðir í tengslum við öldrunarheimili gætu bætt hér úr í einstöku tilfellum þar sem mikill mismunur er á heilsufari sambýlisfólks, þar sem t.d. annar aðilinn er kominn á hjúkrunarrými og þarf hjúkrun allan sólarhringinn og hinn er tiltölulega hress, ef svo mætti segja. Ég tel að þetta þurfi að skoða sérstaklega, og ég endurtek að það er auðvitað miður ef þarf að aðskilja fólk. Það geta samt verið þannig aðstæður að heilsufar fólks sé afar misjafnt og það þarf að horfa á það líka hvaða úrræði henta þá í þeim tilfellum.

Um málefni aldraðra og skort á hjúkrunarrýmum almennt mætti auðvitað ræða lengi en það er ekki pláss fyrir það í þessum fyrirspurnatíma, hvað þá skattlagningu eldra fólks sem væri hægt að ræða með öðrum skattamálum ef tími gæfist til. Ég tek fram að þessi mál eru, eins og komið hefur fram, í skoðun í samstarfsnefnd aldraðra og ríkisstjórnarinnar sem er að störfum um þessar mundir.