132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Viðbúnaður Landhelgisgæslunnar.

155. mál
[15:32]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns áðan um hvenær norðausturheimskautssiglingaleiðin opnist, eins og ég skildi spurninguna, þá get ég ekki svarað því. Það eru þó líkur á því að hún opnist fyrr en síðar miðað við þróun í veðurfari og annað slíkt. Það sem fyrirspyrjandi er að velta fyrir sér er væntanlega olíuvinnsla í Barentshafi og olíuvinnsla sem er hafin á gráu svæði milli Noregs og Rússlands. Það er það sem hér er um að ræða og vinnsla þeirrar olíu sem litið er til í fyrirspurninni.

Fyrirspurnin snerist svo sem ekki um það sem hv. þingmaður víkur síðan að, hvaða búnaður er hér til varðandi olíugirðingar, dælur og annað slíkt til þess að hreinsa ef olía fer í sjóinn. Það er alveg sérstakt viðfangsefni sem að sumu leyti fellur undir Landhelgisgæsluna, að sjálfsögðu, en að öðru leyti undir þá sem hafa með mengunarvarnir við landið að gera. Ég tel að sá búnaður sé til í landinu sem nauðsynlegur er til að bregðast við slysum eða óhöppum á þessu sviði en, eins og ég segi, með hliðsjón af spurningunni taldi ég að um væri að ræða spurningu um þessar breyttu skipaferðir á hafsvæðum og þá er því til að svara að við erum að undirbúa nýtt skip og þá verður líka, að sjálfsögðu, litið til þess hér að eiga þá alþjóðlegu samvinnu sem er nauðsynleg til að unnt sé að bregðast við. Þar eru allar þjóðir við Norður-Atlantshaf að samhæfa krafta sína til að bregðast við ef slík stórslys verða.