132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Snjómokstur.

427. mál
[15:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Þeir sem ferðast um þjóðvegi landsins sérstaklega á veturna gera sér mjög vel grein fyrir hvað þjónusta Vegagerðarinnar er yfirleitt góð og mikilvæg sama hvort við erum að tala um snjómokstur, hálkuvörn eða venjulegt vetrarviðhald sem hefur sem betur fer aukist á flestum stöðum en þó ekki öllum. Þetta er að sjálfsögðu til mikillar fyrirmyndar en má bæta á einstökum leiðum og mikilvægt er að slík þjónusta sé góð. Þess vegna kem ég hér upp, virðulegi forseti, með fyrirspurn vegna þess að af og til berast okkur þingmönnum og ráðherrum fyrirspurnir um hvers vegna þessi og þessi vegarkafli er flokkaður í þennan flokk en ekki einhvern annan.

Erindi mitt hingað er að spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það hvort ekki séu uppi áform um að hafa reglu um snjómokstur alla daga vikunnar á leiðinni frá Akureyri til Egilsstaða og frá þjóðvegi 1 til Vopnafjarðar.

Fyrirspurnin, virðulegi forseti, er sett fram vegna þess að hreppsnefnd Vopnafjarðar hefur skrifað og sent þingmönnum og ráðherra bréf þar sem hvatt er til þessa og bent á að aðeins sunnan við þá eða frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar, Fjarðabyggðar og suður um er mokað sjö daga vikunnar og er til mikillar fyrirmyndar og gott. En á þessari leið sem er þó sennilega eingöngu frá Mývatni til Egilsstaða og niður til Vopnafjarðar er aðeins sex daga mokstur.

Það hefur verið baráttumál Norðlendinga, Austfirðinga og Vopnfirðinga gagnvart sínum legg niður Vopnafjarðarheiðina að fá sjö daga mokstur. Þess vegna legg ég þessa spurningu fram fyrir hæstv. samgönguráðherra, virðulegi forseti, til að athuga hvort ekki standi til að bjóða þarna upp á sjö daga mokstur.

Virðulegi forseti. Það eru mjög margir þar á meðal vegagerðarmenn sem segja að sáralítill aukakostnaður sé við að hafa sjö daga mokstur miðað við sex daga mokstur. Í þessu tilfelli er laugardagurinn ekki mokaður sem er auðvitað mikill ferðadagur hjá fólki og fólk vill vera öruggt um að það komist leiðar sinnar á þessum tíma. En það sem við erum einfaldlega að segja er að með sjö daga mokstri sparast það að ryðja út og annað slíkt þannig að það er ekki endilega svo rosalega mikill aukakostnaður við að þetta verði gert.

Virðulegi forseti. Spurningu mína hef ég sett hér fram til hæstv. samgönguráðherra: Er áformað að hafa reglu um snjómokstur alla daga vikunnar á leiðinni frá Akureyri til Egilsstaða og frá þjóðvegi 1 til Vopnafjarðar?