132. löggjafarþing — 57. fundur,  1. feb. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem við greiðum nú atkvæði um er ekki mikið að vöxtum. Hins vegar liggur ríkisstjórninni mjög á að fá það samþykkt og afgreitt sem lög frá Alþingi.

Ákvæði frumvarpsins eru tekin út úr mun stærra lagafrumvarpi um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Það frumvarp hefur sætt mikilli andstöðu í þjóðfélaginu almennt og hér innan veggja Alþingis einnig. Þess vegna brá ríkisstjórnin á það ráð að fara þessa flýtimeðferð til að ná fram ásetningi sínum til að auðvelda iðnaðarráðherra að veita leyfi til rannsókna á virkjunarkostum en sem kunnugt er vill hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórn halda áfram virkjunum í þágu erlendra álfyrirtækja sem sækja nú inn í landið vegna skattfríðinda og lægsta orkuverðs sem um getur í okkar heimshluta. Í veigamiklum atriðum er um að ræða sérkjör sem ekki eru í boði fyrir íslenskan atvinnurekstur.

Í þessari atkvæðagreiðslu skilja leiðir, annars vegar á milli þeirra sem vilja auðvelda ríkisstjórninni að halda lengra inn á stóriðjubrautina á kostnað íslensks atvinnulífs og íslenskrar náttúru og hins vegar hinna sem vilja hlúa að íslenskum atvinnurekstri, fjölbreytni í atvinnulífinu og síðast en ekki síst að íslenskri náttúru.

Afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er skýr og hún er afdráttarlaus. Núna viljum við álstopp. Við viljum álstopp í þágu fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við viljum álstopp í þágu íslenskrar náttúru.