132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika.

[10:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að nota seinni ræðutíma minn í að taka undir með hv. þingmönnum Samfylkingarinnar um að taka þetta mál upp í umhverfisnefnd þingsins. Ég held að það væri einkar gott að taka það þar upp því að þar eiga framsóknarmenn fulltrúa. Þeir eru nú ekki hér í salnum en þá virðist sérstaklega vanta þegar umhverfismál og byggðamál eru rædd. Það eru þeir tveir málaflokkar sem þeir forðast að ræða hér í þingsalnum — eða þá að önnur skýring gæti verið á því sem snertir það að þeir hafa verið æ meira í því að yfirtaka málaflokkinn. Þeir hafa komið með frumvörp þar sem þeir ganga stöðugt á verksvið hæstv. umhverfisráðherra. Maður furðar sig í rauninni stundum á því hvað Sjálfstæðisflokkurinn gefur eftir.

Við sjáum t.d. frumvarp um vatnalögin. Þar yfirtaka þeir hlutverk hæstv. umhverfisráðherra. Svo er frumvarp um jarðrænar auðlindir og rammaáætlun um nýtingu vatnsafls. Það er ekki á forræði Sjálfstæðisflokksins sem ræður yfir umhverfisráðuneytinu. Nei, það er farið með það í iðnaðarráðuneytið. Þetta er bara vitleysa.

Mig langaði að beina einni fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra í framhaldi af þessari umræðu. Hún nefndi annan samning, samninginn um loftslagsbreytingar. Nú virðist sem iðnaðarráðherra sé næstum orðin hálfgildings umhverfisráðherra, hún yfirtekur útreikinga á því hvað er hægt að losa mikið af gróðurhúsalofttegundum. Ég vil nota tækifærið hér og spyrja hæstv. ráðherra hvort verið sé að reikna losunina á tveimur stöðum, þ.e. hve mikill kvóti sé eftir af gróðurhúsalofttegundum til að losa. Hæstv. ráðherra minntist á að þetta væru tveir mikilvægir samningar. Eigum við þá von á einhverjum deilum um það á milli ráðherra, iðnaðar- og umhverfisráðherra? (Forseti hringir.) Eða mun (Forseti hringir.) hæstv. umhverfisráðherra gefa eftir enn og aftur?