132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:25]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sjái margt gott í þessu mikilvæga og merkilega frumvarpi sem við erum að ræða, sem er rammalöggjöfin um háskóla. En það er eitt sem er vert að undirstrika, að þetta frumvarp fjallar ekki um fjárhagsmálefni háskólanna. Við erum að fjalla um allt aðra hluti en fjárhagsmálefnin og við gerum það m.a. í gegnum fjárlög og fjárveitingar héðan frá hinu háa Alþingi.

En það er líka rétt að undirstrika að ekkert land innan OECD, af því að hv. þingmaður minntist á OECD, hefur aukið fjárframlög jafnhratt til háskóla, opinberra sem einkaháskóla, eins og Íslendingar. Ég vil benda á og hvet hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson til að kynna sér nýjustu tölur frá Hagstofunni þar sem við erum komin upp í tæp 1,5%, nokkuð vel yfir meðaltal OECD-ríkjanna miðað við þjóðarframleiðslu til háskólanna. Þannig að við erum á fljúgandi ferð varðandi aukin fjárframlög til háskólanna. Það má að sjálfsögðu, eins og alltaf, gera betur en við erum að gera góða hluti og stefnum enn hærra.