132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:30]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil undirstrika það sem ég sagði áðan að í þessu frumvarpi er ekki verið að ræða fjárhagsmálefni háskólanna. Það er alveg ljóst að ef framlag ríkisins til háskólanna er tekið þá er það hæst til Háskóla Íslands. Ég hvet hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar til að kynna sér þessar tölur sérstaklega þegar um háskólamálin er að ræða. Menn verða líka að hafa hugfast að við erum með ákveðinn samning í gangi við ríkisháskólana. (Gripið fram í: Það sitja ekki allir við sama borð.) Það sitja allir við sama borð. Síðan eru það háskólarnir sjálfir, og það snertir náttúrlega sjálfstæði þeirra, sem dreifa peningunum innan sinna deilda. Í því felast oft vandræði þeirra sem tala um að ákveðnar deildir fái minna en aðrar. Það eru háskólarnir sjálfir sem eiga að axla þá ábyrgð hvernig þeir dreifa fjármunum sem við semjum við þá um til viðkomandi deilda, (Forseti hringir.) hvort sem um lagadeild eða aðrar deildir er að ræða.