132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:02]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði var að varðandi rekstrargrundvöll háskólanna væri frumvarpið ekki pappírsins virði af því að það tæki ekki á þeim vanda. Það er grundvallarmál í allri umfjöllun um háskólann og háskólastigið. Þess vegna kallaði ég eftir því að í meðförum menntamálanefndar, sem hv. þingmaður fer fyrir, verði það tekið sérstaklega til greina hvort ekki eigi að breyta frumvarpinu í þá veru að það taki á því sem máli skiptir.

Frumvarpið er að þessu leyti fyrst og fremst hraður flótti Sjálfstæðisflokksins frá áður boðuðum markmiðum sínum, þ.e. upptöku skólagjalda í opinberum háskólum. Af hverju flokkurinn hefur ekki fylgt því stefnumiði sínu eftir er mér hulið. Af hverju boðar hann ekki aðrar leiðir til að mæta þörf opinberu háskólanna fyrir fjármagn? Hvaða orðum sem þeirri fjárþörf er valin þá er hún til staðar. Þess vegna er kallað eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn skýri hvernig skólarnir eigi að mæta þeirri fjárþörf, ef þeir eiga ekki að fá heimild til aukinna skólagjalda. Ég kalla eftir þessu.

Mér finnst því fráleitt að taka upp umræðu um háskólastigið og stöðu þess án þess að grunnurinn sé ræddur, þ.e. rekstrargrundvöllur háskólanna. Hann er varla til staðar núna. Þeir eru í mikilli fjárhagskreppu og þurfa að ganga í gegnum miklar þrengingar á næstu árum, komi ekki til annaðhvort opinber framlög eða heimild til skólagjalda. Þessu vil ég fá skýr svör við. En hvað þetta varðar er frumvarpið ekki pappírsins virði og sýnir einfaldlega fram á flótta Sjálfstæðisflokksins frá landsfundarályktun sinni um skólagjöld.

Varðandi hitt sem hv. þingmaður spurði um þá er ágætt að hafa gæðastaðla o.s.frv., verði þeim fylgt eftir. Ég tel að ganga hefði mátt miklu lengra í þeim málum en við ræðum það síðar í dag.