132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:14]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var fín ræða hjá hv. þingmanni og hægt taka undir margt í henni. Hún nefndi umræðuna um ójafna stöðu skólanna. Þar vísar hún til þess uppnáms sem ríkir í opinberu háskólunum, fjárhagslegs uppnáms sem ógnar akademískum tilverugrunni skólanna. Það hlýtur að valda skaða til lengri tíma litið, meðan það mallar ár eftir ár. Skólarnir komast alltaf í meiri og meiri fjárhagserfiðleika og í verri og verri stöðu. Háskólinn á Akureyri leggur niður tvær deilda sinna, sem hlýtur að vera reiðarslag fyrir þá sem hafa staðið að uppbyggingu skólans og þá sem hafa haldið því ákafast fram að byggja þyrfti undir skólann til að efla menntun á landsbyggðinni.

Skólanum hefur verið lýst sem einni best heppnuðu byggðaaðgerð sem nokkurn tíma hafi verið ráðist í. Skólinn hefur bókstaflega blómstrað en núna, út af ónógum fjárframlögum frá hinu opinbera, skorti á peningum upp á nokkur hundruð milljóna króna, neyðist skólinn til að rifa svo seglin með því að leggja niður deildir.

Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands vísuðu þúsund nemendum frá í fyrra. Þetta eru mjög alvarleg tíðindi og vond staða. Opinberu háskólarnir eru í fráleitri stöðu og hv. þingmaður nefndi áðan að jafna þyrfti stöðu þeirra gagnvart einkareknu skólunum. Ég tek heils hugar undir það. Það er grundvallaratriði. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvernig vill hún sjá þeim jöfnuði framfylgt? Eigum við að veita opinberu háskólunum heimild til skólagjalda til jafns við hina einkareknu? Eigum við að veita til opinberu háskólanna hærri fjárframlög en hinir einkareknu fá? Náum við þannig fram jafnháum útgjöldum á hvern nemanda frá hinu opinbera, þar sem opinberu framlögin eru í raun dulin að hluta til í niðurgreiðslu skólagjalda til hálfs?