132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:18]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nefnilega kjarni málsins. Við þurfum að koma með lausnir á fjárhagsvanda opinberu háskólanna. Það eru engar töfralausnir til í sjálfu sér. Það er hægt að fara þá leið að auka verulega opinber framlög til þeirra. Það er hægt að fara þá leið að veita þeim heimild til umtalsverðra skólagjalda sem væntanlega yrði þá lánað fyrir hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eins og hefðin er í sjálfstæðu eða einkareknu skólunum. Þá má spyrja sig hvort ekki sé verið að fara fjallabaksleið að því að auka framlögin til þeirra beint því námslánin eru, eins og fram hefur komið, niðurgreidd rúmlega 50%, þegar allt er saman reiknað, niðurgreiðsla vaxta og annað inn í framtíðina. Hv. þingmaður tók undir að skólarnir væru í stöðu sem kölluðu á viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Hvað sem má kalla það að tvær deildir við Háskólann á Akureyri voru lagðar niður, t.d. að skólinn hafi verið kominn að þolmörkum þannig að eitthvað hafi hlotið að bresta og gefa eftir, sem það gerði, þá þóttu mér það mjög vondar fréttir og komu mér á óvart af því að skólinn hefur verið á mikilli siglingu. Ég hélt að það væri stefna stjórnvalda að standa dyggan vörð um skólann, sem bæði þingmenn allra flokka kjördæmisins og ekkert síður innan stjórnarliðsins væru sammála um, og ég efast ekkert um að svo sé. Þess vegna kom mér á óvart að þetta skyldi ganga svo langt að skólinn skyldi lenda í slíkri klemmu.

En sama má segja um Háskóla Íslands. Við lesum það í blöðunum hvernig gömlu fámennari deildirnar eins og íslenskuskor og guðfræðiskor geta í rauninni ekki haldið starfsemi sinni lengur úti. Það er ekki hægt að læra til guðfræðings nema með hléum og hoppum því námið er ekki lengur samfellt af því það stendur ekki undir því. Reiknilíkanið innan skólans býður ekki upp á það. En rót vandans má í raun og veru rekja til þess að skólinn er svo aðframkominn fjárhagslega að hann verður að (Forseti hringir.) grípa til slíkra ráða.