132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Má ekki skilja hæstv. ráðherra svo að með því að fara leið samkeppninnar hafi hún náð að fjölga skólum, fjölga nemendum, aukið fjárframlög til heildarinnar? En nú erum við kannski komin að því sem þetta frumvarp fjallar um. Kannski var kappið meira en forsjáin, kannski var ekki fylgt eftir gæðakröfum eða þeim stöðlum sem eðlilegt getur talist og þá er það bara næsti kafli sem við erum að fara að innleiða hér. Ég fagna því, eins og kom fram í ræðu minni, að það sé þá næsta mál á dagskrá. En nú finnst mér samt sem áður liggja á borðinu að kappið hafi verið fullmikið, menn hafi farið fram úr sér í þessari fjölgun og nú þurfi að huga að því að gæðin fylgi með, því að magn og gæði eru sannarlega ekki það sama.