132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:44]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að ég tel að við eigum ekki að nálgast skólagjaldaumræðuna á þann hátt að skólagjöldin leysi fjárhagsmálefni háskólanna. Við eigum miklu frekar að líta á skólagjöldin sem ákveðið tæki til að efla háskólastarf, innra starfið, skilvirkni, stjórnsýslu o.s.frv. Við eigum ekki að nálgast skólagjaldaumræðuna að mínu mati út frá þeirri forsendu einni að þau komi til með styrkja fjárhag skólanna. Auðvitað koma þau til með að gera það en þau koma ekki til með að leysa þau viðfangsefni sem eru upp á borði hverju sinni varðandi háskólana.

Varðandi sérlögin sem tengjast ríkisháskólunum, þau mál eru í vinnslu, það er sama nefnd sem hefur fengið það hlutverk að vinna að þeim málum. En eins og menn vita ætlaði ég að leggja þetta frumvarp fram í byrjun haustsins. Þetta mál tók lengri tíma í vinnslu og þar af leiðandi seinkar vinnslunni á sérlögunum um ríkisháskóla, enda (Forseti hringir.) ýmis mál í deiglunni eins og hugsanleg sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.