132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:48]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er orðin nokkuð merkileg umræða sem hefur staðið í rúma fjóra tíma um frumvarp til laga um háskóla, breytingar á háskólafrumvarpi þar sem verið er að innleiða gæðakerfi í háskólana á Íslandi. Verður ekki annað séð en að nokkuð góður samhljómur sé um efni þess frumvarps. En umræðan sérstaklega í andsvörum snýst síðan um allt annað. Hún fer að snúast um skólagjöld sem eru ekki til umræðu og umfjöllunar í frumvarpinu. En segja má að andsvörin og sá þáttur umræðunnar marki ákveðin söguleg tímamót, þ.e. umræðan um skólagjöld. Því ég lít svo á að með þeim andsvörum sem hér hafa farið fram hafi menn komið upp úr þeim skotgrafahernaði varðandi umræðuna um skólagjöld. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá fulltrúa Samfylkingarinnar og ráðherra um opna umræðu um hvernig við leysum fjármál háskólanna og með hvaða hætti (Forseti hringir.) skólagjöld koma þar inn.