132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Stytting náms til stúdentsprófs.

[15:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er alveg augljóst að samkomulag mitt við Kennarasamband Íslands hefur snúið veröld hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar á hvolf því að þessi ræða innihélt ekkert annað en einhverja frasa. Ég tel alveg ljóst að ég þurfi áfram að svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður lagði fyrir mig, hvort ég hyggist falla frá áformum um styttingu náms til stúdentsprófs. Svarið við því er einfalt, hv. þingmaður: Nei, ég hyggst ekki falla frá þeim áformum. Hins vegar skiptir miklu máli hvernig við útfærum það markmið að íslensk ungmenni geti lokið stúdentsprófi ári fyrr en nú er.

Ég vil byrja á að rifja upp forsendur þess að rætt er um breytta námsskipan til stúdentsprófs. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku skólakerfi síðasta áratuginn, ekki síst í grunnskólanum. Þær breytingar voru á sínum tíma m.a. ákveðnar sem skref að því markmiði að stytta heildarnámstíma til stúdentsprófs. Þannig hefur kennslustundum í grunnskóla fjölgað um rúmlega 2.300 og í framhaldsskóla um 400 frá árinu 1994. Það er þetta svigrúm sem liggur til grundvallar áformum um breytta námsskipan, að nýta tímann betur, það svigrúm sem við höfum mótað til að ná þessu markmiði, m.a. hér á hinu háa Alþingi.

Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði fyrir nokkru var metið hvaða áhrif það gæti haft í bráð og lengd á ævitekjur nemenda að stytta framhaldsskólann um eitt ár. Útreikningar Hagfræðistofnunar sýna að samanlagðar ævitekjur nemenda munu aukast um tæpa 6 milljarða kr. á ári og ef litið er til allrar framtíðar gæti hinn núvirti tekjuauki samtals numið um 88 milljörðum fyrir samfélagið.

Að loknum fyrirhuguðum breytingum munu íslensk ungmenni sækja skóla í u.þ.b. 10.400 kennslustundir frá því að skólaganga hefst fram að stúdentsprófi. Sambærileg tala er um 10.050 kennslustundir í Danmörku, í Svíþjóð 8.800, í Noregi 9.500 og í Finnlandi 8.500. Þrátt fyrir breytta námsskipan munu íslensk ungmenni fá fleiri kennslustundir fram að stúdentsprófi en annars staðar á Norðurlöndunum. Þeir sem telja að ekki sé hægt að stytta námstíma til stúdentsprófs verða jafnframt að svara þeirri spurningu hvers vegna íslensk ungmenni geti ekki lokið stúdentsprófi á sama tíma og alls staðar annars staðar er gert í Evrópu, ekki síst í ljósi þeirrar stefnu og markmiða sem við erum sameiginlega að fara í með Evrópuþjóðum í gegnum Bologna-ferlið, í gegnum háskólann. Við erum að samræma háskólasamfélagið, af hverju þá ekki líka önnur skólastig?

Þegar ég tók við embætti menntamálaráðherra fyrir rúmum tveimur árum lagði ég áherslu á að áform um breytta námsskipan til stúdentspróf yrðu að byggjast á aukinni samfellu milli skólastiga. Við eigum ekki að líta á skólakerfið sem nokkra kassa, heldur verðum við að líta á leikskólann, grunnskólann og framhaldsskólann sem eina heild, að markmiðið sé að stytta námstímann úr 14 árum í 13. Ég hef einnig lagt mikla áherslu á, þrátt fyrir breytingar á námsskipaninni, að fórna ekki þeim sveigjanleika sem einkennt hefur íslenska skólakerfið og hefur verið einn mesti styrkur þess. Það er algjör fásinna að halda því fram að niðurskurður og skerðing hafi verið markmiðið. Markmiðið með þessu er alveg ljóst og til þess hefur verið haft samráð við allt skólasamfélagið allan tímann frá því að lagt var upp með þetta verkefni fyrir mörgum árum, m.a. í nokkuð miklum samhljómi hér á þingi, þ.e. að efla og styrkja skólakerfið. Sú er náttúrlega meginforsendan fyrir þessu, að nýta tímann betur og efla skólakerfið.

Breytingu sem þessa verður að gera í sátt og samvinnu við skólasamfélagið, ég tek heils hugar undir það. Ég tel samkomulag það sem ég undirritaði fyrr í dag ásamt formanni Kennarasambands Íslands um 10 skrefa sókn í skólamálum í tengslum við áform um breytta námsskipan til stúdentsprófs vera afar mikilvægt skref í þeim efnum. Við höfum lýst því yfir að við hyggjumst sameina krafta okkar til að búa vel að samfellu skólastarfs við breytta námsskipan og stefna að sveigjanlegra skólakerfi. Við munum vinna saman að endurskoðun laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla. Það höfum við gert og munum gera áfram. Meginmarkmið endurskoðunarinnar verður aukin samfella milli skólastiganna, sveigjanleiki milli og innan skólastiga og að mæta breytilegum þörfum ólíkra nemenda. Lokamarkmiðið er betri menntun og betri námsárangur nemenda.

Við erum sammála um eflingu kennaramenntunar, að hún sé ein helsta forsenda þess að hægt sé að þróa og styrkja íslenska menntakerfið. Einnig hyggjumst við standa saman að því að efla endurmenntun kennara á öllum skólastigum. Í samkomulagi okkar felst einnig sveigjanlegri aðlögunartími framhaldsskóla til að takast á við breytta námsskipan, löggilding á starfsheiti og starfsréttindum leikskólakennara og endurskipulagning almennra brauta framhaldsskólanna í samhengi við eflingu náms- og starfsráðgjafar.

Þjóðfélag okkar, herra forseti, er í stöðugri þróun og það verða menn að þora að horfast í augu við, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Það sama verður að eiga við um skólakerfið. Markmið þeirra breytinga sem við stefnum nú að er að nýta þann tíma sem varið er til skólagöngu (Forseti hringir.) betur, en án þess að dregið sé úr gæðum (Forseti hringir.) þess náms sem í boði er.