132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Stytting náms til stúdentsprófs.

[15:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Fyrir rúmum tveimur árum vorum við í þessum sal að ræða sama málefni. Þá var að heyra á hæstv. ráðherra að það væri ekkert mál að stytta námstímann. Núna, tveimur árum síðar, virðist hæstv. ráðherra vera að átta sig. Ég fagna því að henni finnist betra að gera þessa hluti í sátt og samkomulagi og sjái að það verði einfaldlega að taka tillit til þeirra skólastiga sem eru fyrir ofan og neðan. Það hefði ráðherra í raun átt að sjá á sínum tíma en ég fagna því að hún er núna búin að átta sig á þessu og óska henni til hamingju.

Málið var kynnt þannig að það hlaut að hleypa illu blóði í fólk. Það var kynnt sem skerðing á skólastarfinu. Við í Frjálslynda flokknum höfum getað stutt það að útskriftaraldur yrði almennt 19 ár en við gerðum okkur líka grein fyrir því að þetta yrði ekki einfaldlega gert með því að klippa nám út úr framhaldsskólunum. Það er algjört óráð. Við gerum okkur einnig grein fyrir því að þótt unglingar á þessum aldri tileinki sér nytsamar staðreyndir sem nýtast þeim síðar í lífinu skiptir ekki síður máli að efla félagsanda. Nemendur taka út ákveðinn félagsþroska á þessum árum.

Ég tel að þetta mál, eins og það er í pottinn búið nú, sé jákvætt, að hæstv. ráðherra ætli að taka tillit til óska þeirra sem starfa í skólunum en ekki að keyra málið áfram með einhverjum þvergirðingshætti.