132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Stytting náms til stúdentsprófs.

[15:19]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það má segja að Samfylkingin sé skrýtinn stjórnmálaflokkur. Samfylkingin er nefnilega eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur haft það á stefnuskrá sinni að stytta námstíma til stúdentsprófs. Það var á stefnuskrá flokksins frá 1999–2003. Síðan skipti flokkurinn með einhverjum dularfullum hætti um skoðun í málinu og það er reyndar ekki í fyrsta skipti sem það gerist. Síðast í gær bárust fréttir af því að þingflokkur Samfylkingarinnar hefði samþykkt ályktun þar sem skorað var á hæstv. menntamálaráðherra að falla frá hugmyndum sínum um breytta og bætta námsskipan til stúdentsprófs.

Auðvitað (Gripið fram í.) má ræða rökin með eða á móti þessum breytingum og við höfum gert það margoft en það er alveg ljóst í þessari umræðu, herra forseti, að mörgum spurningum er ósvarað, eins og t.d. þessari: Hvers vegna í ósköpunum þurfa íslensk ungmenni lengri tíma til að klára stúdentspróf en erlendir kollegar þeirra? Þeirri spurningu hefur hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson aldrei svarað. Og þaðan af síður hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. (Gripið fram í: … súr.) Þessu hefur aldrei verið svarað. Ég geri ekki ráð fyrir því að íslensk ungmenni séu verr gefin en erlendir kollegar þeirra. Nú ber hins vegar svo við að hæstv. menntamálaráðherra og forusta Kennarasambandsins, þ.e. leikskólakennarar, grunnskólakennarar, framhaldsskólakennarar og skólastjórnendur, hafa gengið í eina sæng og ætla að vinna saman að breyttri og bættri námsskipan til stúdentsprófs eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur kynnt hana.

Það verður hvorki séð af ályktun Samfylkingarinnar frá því í gær né ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar núna að það sé mikill sáttatónn í Samfylkingunni þrátt fyrir þessa sögulegu sátt sem ég leyfi mér að kalla.

Nú er spurningin: (Forseti hringir.) Ætlar Samfylkingin að hoppa upp í sængina (Forseti hringir.) með hæstv. menntamálaráðherra og kennaraforustunni og stuðla (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) að bættu og betra menntakerfi eða ætlar hún að standa fyrir utan ein og yfirgefin? (Gripið fram í.)