132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Stytting náms til stúdentsprófs.

[15:23]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Frá því að farið var fram á þessa utandagskrárumræðu má segja að forsendur hafi breyst. Engu að síður má heyra af mæli manna að þær forsendur hafa að sumu leyti ekki breyst í huganum og það minnir mig svolítið á fræga sögu af manni sem varð fyrir því að það sprakk á bílnum hans upp til fjalla og hvernig hann sefjaði sig upp á leiðinni að næsta bæ til ná í tjakk. Ég ætla ekki að rekja þá sögu en ýmsar ræður stjórnarandstöðunnar minna mig á hana.

Um hvað snýst þetta mál? (Gripið fram í.) Að boðaðar hafa verið breytingar á menntakerfinu, skoða eigi aukna skilvirkni í menntakerfinu og skoða tengsl einstakra skólastiga. Stytting til stúdentsprófs er eitt af mörgum atriðum sem þar komu til umræðu. Það hlýtur, herra forseti, að vera eðlilegt að yfirfara reglulega skólakerfið í heild sinni, athuga tengsl þess. Hins vegar er óhætt að segja að þrátt fyrir ítarlega kynningu hafi ekki ríkt sátt um þetta mál, heldur að ríkt hafi ákveðið stríðsástand. Það vekur auðvitað upp þær spurningar hvort hægt sé að ná fram slíkum breytingum ef ekki er samhljómur á milli skólasamfélagsins og yfirvalda.

Þess vegna, virðulegur forseti, er virkilega ástæða til að fagna þessum degi í dag, að það er sátt á milli ríkisvaldsins annars vegar og skólasamfélagsins hins vegar á grundvelli þeirra 10 punkta sem skrifað var undir í dag, 10 punkta þar sem á að leita að aukinni skilvirkni í samstarfi, fara yfir hvar hægt sé að bæta menntakerfi okkar og þar fram eftir götunum. Það hlýtur að vera gleðiefni því fram undan hljótum við að sjá að ríkisvaldið og skólasamfélagið ætla í sameiningu að stíga mikilvæg skref til að auka skilvirkni, bæta menntakerfið okkar, bæta menntastig þjóðarinnar.

Þess vegna er ánægjulegt að sjá hversu margir hafa tekið gleði sína á þessum fallega degi.