132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Stytting náms til stúdentsprófs.

[15:26]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra virðist ekkert hafa lært. Hún heldur áfram í málinu að skattyrðast við skólasamfélagið eins og fíll í glervörubúð. Í hádeginu kynnti hún samkomulag sem kennarar töldu fela í sér að hæstv. ráðherra félli frá áformum sínum um að skerða nám til stúdentsprófs. Núna, tveimur tímum síðar, er hún enn við sama heygarðshornið og talar enn um skerðingu. Það er augljóst að hæstv. menntamálaráðherra lítur á 10 spora kerfið sem kynnt var í hádeginu sem einhvers konar ósigur, hún hafi ekki bara tapað orrustu, heldur heilu stríði.

Svo er af Sjálfstæðisflokknum dregið í þessu máli.

En við hljótum að fagna því að opnuð hafi verið undankomuleið fyrir hæstv. menntamálaráðherra í þessu máli, henni gefið tækifæri til að falla endanlega frá því á þeim fjórum árum sem frestunin felur í sér. Fjögurra ára frestun á boðuðum tillögum er góðar fréttir. Þar með hefur menntamálaráðherra fundið útgönguleið, a.m.k. eins og hægt er að túlka — og við hljótum að túlka — samkomulagið við kennara um að breytt námsskipan feli það í sér að nám verði ekki skert og nám verði ekki stytt með þeim hætti sem lagt var þar upp. Standi hæstv. ráðherra við samkomulagið er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að boðuð skerðing sé úr sögunni, enda getur varla annað í samkomulaginu staðið verði fallið frá því í grundvallaratriðum.

Hæstv. forseti. Ég vona að píslargöngu Sjálfstæðisflokksins í því máli að skerða nám til stúdentsprófs sé lokið og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fallist á þá leið skynseminnar sem Samfylkingin hefur boðað í þessum málum árum saman að auka flæði og sveigjanleika á milli skólastiga og endurskoða nám á öllum skólastigum í heild sinni.

Þess vegna fögnum við í dag. Menntamálaráðherra hefur verið gefin leið út úr þessu vonda máli og ég skora á Sjálfstæðisflokkinn að taka gleði sína á ný þó að þau hafi verið þung, sporin inn í 10 spora kerfið sem kynnt var í hádeginu.