132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:30]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla. En aðdragandi frumvarpsins er að nú eru ríflega 10 ár liðin frá því að gildandi grunnskólalög tóku gildi sem fólu í sér þá grundvallarbreytingu, eins og við þekkjum, að rekstur grunnskólans var fluttur frá ríkinu til sveitarfélaganna. Vegna þess hefur á undanförnum missirum af hálfu menntamálaráðuneytisins verið í skoðun þörf á breytingum á grunnskólalögum með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin er. Við þá skoðun hefur komið í ljós að þörf er á að endurskoða lögin frá grunni með það að leiðarljósi að semja ný lög og er undirbúningur að þeirri vinnu hafinn.

Hv. þingmenn þekkja það ástand sem skapaðist á síðasta ári í verkfalli grunnskólakennara og eftir þann erfiða tíma var nauðsynlegt að mínu mati að bíða og leyfa skólasamfélaginu að jafna sig og fengum við líka frá því skýr merki í þá veru. Nú hefur hins vegar hafist að nýju mikil og að mínu mati jákvæð umræða um málefni grunnskólans og við gerð þessa frumvarps hefur komið í ljós að nú er samhljómur á milli allra hagsmunaaðila um að hefja vinnu við heildarendurskoðun laganna þannig að ný lög verði samin frá grunni.

Við gerð þessa frumvarps hefur verið litið almennt til framkvæmdarinnar og þeirra álitamála sem upp hafa komið, m.a. tengd úrskurðum ráðuneytisins á grunnskólastiginu. Auk þess hafa verið til skoðunar heimildir til stofnunar og reksturs einkarekinna grunnskóla, viðurkenning þeirra og réttur til opinberra fjárframlaga.

Við vinnslu þessa frumvarps hefur verið höfð hliðsjón af tillögum fræðsluráðs Reykjavíkur sem birtust í skýrslu starfshóps á þess vegum sem út kom í maí 2004, ýmsum ábendingum frá umboðsmanni barna á undanförnum árum og niðurstöðum grunnskólaþings sem haldið var í Reykjavík í mars 2004 á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga undir yfirskriftinni: Er grunnskólinn kominn til sveitarfélaganna? auk skýrslu menntamálaráðuneytisins frá því í ágúst 2004 er ber heitið: Breytt námsskipan til stúdentsprófs, aukin samfella í skólastarfi.

Meginbreytingarnar sem frumvarp þetta felur í sér frá núgildandi grunnskólalögum eru eftirfarandi:

Að ákvæði gildandi laga, sem nú er að finna í 56. gr. um stofnun grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum, eru gerð skýrari, auk þess sem lagt er til að lögbundið verði lágmarksframlag sveitarfélaga til reksturs þeirra, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til að tryggja frekar en nú er rekstrargrundvöll þeirra.

Hér er að mínu mati um að ræða mikilvægustu breytinguna sem frumvarp þetta hefur að geyma og er að finna í 23. gr. þess. Ég mun hér á eftir fjalla ítarlega um þetta ákvæði frumvarpsins. Í kjölfar breytts umhverfis grunnskóla og ólíkra starfshátta er lagt til að ákvæði gildandi laga um ráðningu aðstoðarskólastjóra sé breytt í 12. gr. frumvarpsins og með því er lagt til að horfið verði frá því að lögbinda skyldu til að ráða aðstoðarskólastjóra í grunnskóla þar sem starfa 12 starfsmenn eða fleiri í fullu starfi auk skólastjóra.

Er þetta í fullu samræmi við kröfur skólasamfélagsins og sveitarfélaganna um að auka sveigjanleika sveitarfélaganna og skólastjórnenda við skipulag skóla út frá þörfum hvers skóla. Á móti verði kveðið á um að ef ekki er starfandi aðstoðarskólastjóri við grunnskóla ákveði skólastjóri í upphafi skólaárs, í samráði við skólanefnd, hver úr hópi ótímabundið ráðinna kennara skólans skuli annast skólastjórn í forföllum hans.

Þá er gert ráð fyrir að skólanefnd staðfesti gildistöku skólanámskrár og að skólanefnd hafi það hlutverk að stuðla að samstarfi grunnskóla og framhaldsskóla, auk samstarfs leikskóla og grunnskóla eins og er í gildandi lögum.

Enn fremur er lagt til að aukið verði á sveigjanleika við framkvæmd kennslu með því að fella niður ákvæði um lágmarkskennslustundafjölda á viku og að meðallengd kennslustunda skuli vera 40 mínútur. Gerðar verði þær breytingar á 2. mgr. 27. gr. gildandi laga að einungis sé kveðið á um lágmarks vikulegan kennslutíma í mínútum, en ekki einnig í kennslustundum og er um þetta fjallað m.a. í 13. gr. frumvarpsins.

Í samræmi við það er lagt til að 2. málsl. 4. mgr. 27. gr. falli brott en þar segir að meðallengd kennslustunda í grunnskóla skuli vera 40 mínútur. Breyting þessi eykur sveigjanleika skóla til að skipuleggja skólatímann með öðrum hætti en út frá meðallengd kennslustunda. Þá eru lagðar til í 17. gr. frumvarpsins víðtækari heimildir til mats á námi utan grunnskóla til valgreina og jafnframt veitt aukið svigrúm til undanþágu frá skólasókn nemenda vegna reglubundins náms eða íþróttaiðkunar utan skóla eða af öðrum gildum ástæðum.

Þessar kröfur um sveigjanleika skólastarfs eru í takti við þá faglegu þróun innan skólanna sem hefur átt sér stað undanfarin ár þar sem leitast er við að búa til umhverfi fyrir einstaklingsmiðaða kennsluhætti. Skerpt er á lögbundnum umsagnarrétti foreldraráða í 8. gr. frumvarpsins þannig að hann nái til fyrirhugaðra meiri háttar breytinga á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um það liggur fyrir auk samráðs sveitarstjórna við foreldraráð vegna undirbúnings við gerð skólamannvirkja. Sérstök áhersla er lögð á aukinn þátt nemenda í skólastarfinu með því að lagt er til í 9. gr. frumvarpsins að lögbundið verði með sama hætti og um foreldraráð að við hvern grunnskóla skuli starfa nemendaráð og er því ætlað aukið hlutverk frá því sem er í gildandi lögum.

Jafnframt er lagt til að lögfest verði í 10. og 19. gr. frumvarpsins ákvæði sem snúa að námsumhverfi nemenda, öryggi og vellíðan þeirra í skólastarfinu auk þess sem menntamálaráðherra er falið í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að setja reglugerð um skólaakstur í 2. gr. frumvarpsins og um slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum, sbr. 11. gr. frumvarpsins.

Lögð er til breyting á málsmeðferðarreglum gildandi laga í 3. og 20. gr. auk þess sem orðalagi nokkurra greina er breytt eða það gert skýrara.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir meginefni frumvarpsins og fjallað í því sambandi stuttlega um einstakar greinar þess en eins og ég boðaði í upphafi þessarar framsöguræðu minnar tel ég mikilvægt að fjalla sérstaklega um 23. gr. frumvarpsins sem að mínu mati hefur mikla þýðingu fyrir þróun grunnskólastarfs hér á landi og tryggir að ákveðnu marki grundvöll til að viðhalda og auka fjölbreytni í skólasamfélaginu.

Fjölbreytni og sveigjanleiki er það tvennt sem við leitum ávallt að í skólakerfinu. Fjölbreytni er margþætt hugtak og vísar til ólíkra þátta í skólakerfinu, til að mynda hugmyndafræði skóla, námstækni eða kennsluhátta. Fjölbreytni í rekstrarformi skóla er einn hluti af þeirri fjölbreytni sem við sækjumst eftir í skólaumhverfinu á Íslandi. Rekstrarform skóla eykur fjölbreytni skóla í því að tryggja valfrelsi í skólamálum, það tryggir frumkvæði einstaklinga, félagasamtaka eða annarra aðila til að stofnun grunnskóla eigi fótfestu og er mikilvægur þáttur í að bjóða einstaklingsmiðaða kennsluhætti. Það þarf að tryggja valfrelsi í grunnskólum eins og í öðrum skólum landsins, sjálfstæðir skólar eru tækifæri til að auka við menntaflóruna í landinu. Hafa ber í huga að ákvæði um einkaskóla í grunnskólalögunum hefur verið óbreytt allt frá gildistöku grunnskólalaganna frá 1974. Þá var tekið fram í lögunum að einkaskólar ættu ekki kröfur til styrks af almannafé. Í gildandi lögum eru ákvæði um einkaskóla í 56. gr. og það eru nánast samhljóða ákvæði frá lögunum frá 1974.

Nokkrir einkaskólar eða sjálfstætt reknir skólar hafa verið reknir hér á landi um langan tíma, t.d. Ísaksskóli, Landakotsskóli, Suðurhlíðaskóli og Tjarnarskóli. Einnig eru starfandi tveir Waldorf-skólar og nýjasti sjálfstætt rekni skólinn er Barnaskóli Hjallastefnunnar í Garðabæ. Eins og kunnugt er hafa þessir skólar sannað rækilega tilverurétt sinn og ásókn í þá hefur verið mikil þrátt fyrir þá staðreynd að flestir þeirra hafi átt í fjárhagserfiðleikum þar sem framlag sveitarfélaganna til þeirra hefur ekki nægt til að rekstur þeirra sé með viðunandi hætti. Þar sem engin ákvæði hafa verið í lögum um rétt þeirra á framlögum hefur það alfarið verið ákvörðunaratriði sveitarfélaga á hvern hátt starfsemi þeirra hefur verið styrkt. Eins og fram kemur í frumvarpinu er í Danmörku, Noregi og Svíþjóð að finna ákvæði um sjálfstætt rekna skóla í skólalöggjöfinni og rétt þeirra til rekstrarframlaga frá opinberum aðilum. Í Danmörku er almennur rekstrarstyrkur á hvern ársnemanda í sjálfstætt reknum skólum samsvarandi meðalútgjöldum vegna hvers ársnemanda í almennum grunnskólum. Í Svíþjóð skal sjálfstætt rekinn grunnskóli sem hlotið hefur viðurkenningu menntamálayfirvalda eiga rétt á sambærilegum fjárstuðningi og almennir grunnskólar. Ef nemandi stundar nám við sjálfstætt rekna grunnskóla skal lögheimili sveitarfélags viðkomandi nemanda greiða til skólans samsvarandi upphæð og nám hans kostar í almennum grunnskóla. Í Noregi skulu sjálfstætt reknir skólar fá ríkisstyrk sem samsvarar 85% af almennum rekstrarkostnaði miðað við kennslu nemanda í almennum grunn- og framhaldsskólum. Ef opinber fjárstuðningur dugar ekki til að reka skólann er skólanum heimilt að innheimta skólagjöld.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til í frumvarpinu á 56. gr. gildandi grunnskólalaga miðast við að gera stöðu sjálfstætt rekinna grunnskóla hér á landi sterkari en nú og lögbinda lágmarksframlag með hverjum nemanda. Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að menntamálaráðherra sé heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 3. gr., sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans.

Minni ég á að í gildandi lögum segir að ráðherra sé heimilt að löggilda grunnskóla eða hluta grunnskóla, en hér er lagt til að ráðherra veiti grunnskólum viðurkenningu til að starfa sem slíkir í stað löggildingar áður. Þessi orðalagsbreyting felur ekki í sér neina efnisbreytingu frá gildandi lögum enda er viðkomandi skóla í báðum tilvikum heimilað að starfa sem grunnskóli og starfa sem slíkur á grundvelli grunnskólalaga. Í frumvarpi laga um háskóla, sem ég mælti hér fyrir fyrr í dag, er lagt til að háskólar séu viðurkenndir af menntamálaráðuneytinu. Því má segja að hér sé um ákveðið samræmi að ræða þótt gert sé ráð fyrir að viðurkenning háskólans sé bundin við fræðasvið á meðan frumvarp þetta byggir á því að viðurkenning grunnskóla nái til grunnskólastarfsemi hvers skóla í heild sinni.

Þá gerir 1. mgr. ráð fyrir að grunnskólar geti verið með mismunandi rekstrarform og ekki er gert ráð fyrir því að ráðherra þurfi sérstaklega að staðfesta viðkomandi rekstrarform eins og núverandi ákvæði gerir ráð fyrir.

Er það einnig í samræmi við frumvarpið um háskóla enda verður ekki séð að sérstök rök réttlæti afskipti hins opinbera af því hvaða rekstrarform menn kjósa að viðhafa í kringum skólastarfsemi. Ég tel mikilvægt fyrir sveitarfélögin að 1. mgr. byggi á því að samþykki þeirra um stofnun grunnskóla liggi fyrir til að ráðuneytið geti veitt þeim viðurkenningu. Þá er sveitarfélögum heimilt að binda samþykki sitt við ákveðinn hámarksfjölda nemenda auk þess sem tekið er fram að um slíka grunnskóla gildi sömu lög og reglur og um grunnskóla skv. 1. gr. eftir því sem við á. Rétt þykir og eðlilegt að binda viðurkenningu grunnskóla við að samþykki sveitarfélags um stofnun skólans liggi fyrir áður þar sem viðkomandi skólar samkvæmt frumvarpinu, verði það að lögum, hafi lögvarinn rétt til lágmarksframlags úr sveitarsjóði á hvern nemanda sem hefur lögheimili í því sveitarfélagi þar sem skólinn starfar, skv. 2. mgr. greinarinnar. Jafnframt verði sveitarfélögum af sömu ástæðu heimilt að binda samþykki sitt við ákveðinn hámarksfjölda nemenda. Vegna tilvísunar til þess að um þessa skóla gilda sömu lög og reglur og um grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum eftir því sem við á ber að taka fram að framangreindur fyrirvari vísar til að ákvæði laga og reglna sem sérstaklega varða sveitarfélögin ein og sér ná ekki til skóla sem reknir eru af öðrum.

Í 2. mgr. 23. gr. frumvarpsins er lagt til að grunnskólar sem hljóta viðurkenningu skv. 1. mgr. eigi rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar. Og framlagið ákvarðað á grundvelli nemendafjölda og nemur að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar sveitarfélaga við hvern nemanda á ári samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Þetta gildir um skóla sem eru með allt að 200 nemendur, en að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda sem er umfram þann fjölda. Með heildarrekstrarkostnaði er átt við allan almennan rekstrarkostnað grunnskólans, þar með talinn rekstrarkostnað húsnæðis og afskriftir. Með því að miða við vegið meðaltal er tekið tillit til stærðar skólanna þannig að stórir skólar fá meira vægi en litlir.

Gert er ráð fyrir að viðmiðunartölur þær sem Hagstofan gefur út árlega og lagðar verða til grundvallar á útreikningi á framlagi sveitarfélags til sjálfstætt rekinna grunnskóla liggi fyrir í september ár hvert og séu þá byggðar á ársreikningum rekstrarárs sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.

Til að átta sig á því hvaða fjárhæðir eru hér á ferðinni þá var á árinu 2004 meðaltal heildarrekstrarkostnaðar grunnskólans á landsvísu á hvern nemanda 666.985 kr. og 75% af þeirri fjárhæð eru 500.239 kr. En 70% eru þá 466.890 kr. Sé til samanburðar litið til rekstrar grunnskóla í Reykjavík á árunum 2004 nam heildarrekstrarkostnaður hagkvæmasta grunnskólans í því sveitarfélagi 443.480 kr.

Við ákvörðun á hlutfallslegu framlagi sveitarfélaga til rekstrar þessara skóla er með þessu ákvæði frumvarpsins leitast við að skapa þeim raunhæfan rekstrargrundvöll um leið og litið er til þess að jafna stöðu ólíkra rekstrarforma. Um leið er þess þó gætt að ekki verði skapaðir beinir fjárhagslegir hvatar til stofnunar og reksturs grunnskóla. Miðað við fyrirliggjandi tölur og gögn frá sveitarfélögum um rekstur við kostnað grunnskóla á árinu 2004 munu þau hlutföll sem hér eru lögð til grundvallar, þ.e. 75% og 70%, þýða að raunframlög á nemanda til sjálfstætt starfandi grunnskóla verða lægri en reiknaður meðalkostnaður við nemanda í flestum grunnskólum landsins. Svo dæmi sé tekið mundi sjálfstætt starfandi grunnskóli með 500 nemendur fá framlag sem næmi að meðaltali 480.230 kr. á hvern nemanda.

Hér er einnig rétt að vísa til þess að ekki er gert ráð fyrir að sveitarfélögum beri nein skylda til að taka þátt í beinum stofnkostnaði vegna sjálfstætt starfandi grunnskóla. Að samanlögðu er ljóst að sú fjárhæð sem sveitarfélög greiða að lágmarki með hverjum nemanda samkvæmt frumvarpi þessu er verulega mikið lægri en meðaltal á landsvísu á hvern nemanda. Gert er ráð fyrir tvískiptingu hlutfallsins í annars vegar 75% og hins vegar 70%.

Réttur til fjárframlaga skv. 2. mgr. er einnig bundinn við lögheimili í því sveitarfélagi sem viðkomandi skóli starfar í. Vera má að foreldri barns sem á lögheimili í öðru sveitarfélagi en því sem skólinn starfar í óski eftir námsvist fyrir barn sitt. Skulu greiðslur fyrir námsvist þess þá koma frá því sveitarfélagi þar sem barnið á lögheimili, á grundvelli samkomulags milli skólans og viðkomandi sveitarfélags. Samkvæmt 3. mgr. er menntamálaráðherra heimilað að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Er þá bæði átt við reglugerðarheimild um löggildingu grunnskóla skv. 1. mgr. og reglugerðarsetningu vegna framkvæmdar á 2. mgr.

Virðulegi forseti. Ég tel að 23. gr. frumvarpsins geymi tímamótaákvæði fyrir framþróun starfsemi grunnskóla í landinu og vil ég sérstaklega nefna það hér að á nýliðinni ráðstefnu Samtaka sjálfstæðra skóla kom fram mikil ánægja með þá stefnu sem þetta ákvæði frumvarpsins byggist á. Það er að tryggja ákveðinn rekstrargrundvöll þeirra grunnskóla sem ekki eru reknir af sveitarfélögunum og verð ég ekki vör við annað en úr þeim herbúðum sé talið að þær viðmiðunarfjárhæðir sem ákvæði 23. gr. byggist á séu ásættanlegar fyrir þessa skóla. Það má ekki gleyma því að hér er um lágmarksréttindi að ræða og því er hverju sveitarfélagi að sjálfsögðu í sjálfsvald sett að ákveða hærri fjárhæðir til rekstrar þessara skóla úr sveitarsjóði eins og dæmin sanna og sum sveitarfélög hafa farið þær leiðir að ákveða framlögin 100% til sjálfstætt rekinna grunnskóla gegn því að þeir taki ekki við skólagjöldum.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið efni frumvarpsins. Ég legg að lokum áherslu á það sem ég boðaði í upphafi ræðu minnar að á næstunni hefst vinna við endurskoðun á grunnskólalögunum frá grunni með það að leiðarljósi að samin verði ný lög. Ég legg sérstaka áherslu á víðtækt samráð við hagsmunaaðila í tengslum við þá endurskoðun og legg upp með að skipa sjö manna nefnd í þetta mikilvæga verkefni. Sú nefnd verður skipuð tveimur fulltrúum frá ráðuneytinu, Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir tvo fulltrúa, Kennarasamband Íslands tilnefnir tvo fulltrúa og frá Heimili og skóla kemur einn fulltrúi. Ég vænti mikils af störfum þessarar nefndar sem mun lúta forustu Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur.

Að lokum legg ég til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hæstv. menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.