132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:54]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er stuðningsmaður þess að sjálfstætt starfandi grunnskólar séu starfræktir. Þeir eru góð viðbót við hverfisskóla, að mínu mati. Þeir eiga að fá að blómstra sem valkostur fyrir utan þann ramma og ég hef kallað eftir því að við sníðum lagaramma um starfsemi sjálfstætt starfandi eða einkareknu grunnskólanna þannig að þeir komist betur af.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson minntist á 23. gr. frumvarpsins sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en ákaflega miðstýrða þvingun og árás á sjálfsforræði sveitarfélaganna. En samkvæmt henni er þeim gert skylt að leggja til að lágmarki 75% af vegnu meðaltali af heildarrekstrarkostnaði allra grunnskóla sem reknir eru í landinu. Af hverju er þetta ákvæði ekki sett fram með mildilegri hætti, hæstv. ráðherra? Þar mætti t.d. segja að náist um það sátt við sveitarfélögin verði það 75% af heildarframlagi á skóla og nemanda innan viðkomandi sveitarfélags.

Þessu hlýtur að vera beint sérstaklega gegn Reykjavík þar sem einn þriðji allra íslenskra grunnskóla er starfræktur í Reykjavík. Þetta er augljóslega gert í algjörri andstöðu við ráðamenn þar og í algjörri andstöðu við flokksbræður og flokkssystur hæstv. menntamálaráðherra í Reykjavíkurborg.

Af hverju er gengið svo langt í frumvarpinu í 23. gr., sem er ekki hægt að túlka öðruvísi en sem miðstýrða þvingun og árás á sjálfsforræði sveitarfélaganna? Af hverju er ekki leitað annarra leiða til að ná fram sama markmiði? Markmiðið er gott og nauðsynlegt, þ.e. að sníða lagaramma um starfsemi einkarekinna grunnskóla, sem eru starfræktir utan um tiltekna hugmyndafræði. Helst af öllu ættu þeir að vera skyldugir til þess, taki þeir á móti opinberum framlögum, að innheimta ekki skólagjöld og mismuna ekki nemendum eftir aðstæðum.