132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:56]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega undirstrika það að þetta er ekki í andstöðu við flokksfélaga mína í Reykjavík. Þvert á móti sjá allir tækifærin og möguleikana sem felast í þessu frumvarpi. Það skiptir máli.

Hins vegar er alltaf gaman að fylgjast með því að þegar ákveðnir þingmenn eða flokkar þurfa að taka afstöðu til mála, t.d. varðandi skólamál. Þá er alltaf dregin fram þessi regnhlíf sem menn eru að skýla sér með, að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga verði skertur. Þetta er svo mikil della. Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er ekki skertur á nokkurn hátt. Það er sérstaklega hnykkt á því í frumvarpinu að sveitarfélögin ráði því hvort slíkir skólar séu starfræktir innan þeirra svæða. Þau ráða því. Ef þau segja nei þá þurfa þau ekki að greiða. En ef þau segja já eru þau skyldug til að greiða ákveðið lágmarksframlag. Af hverju? Jú, við viljum tryggja valfrelsi og fjölbreytni. Hins vegar hefur bæði leynt og ljóst verið ákveðið einelti í gangi af hálfu meiri hlutans í Reykjavík (Forseti hringir.) gagnvart sjálfstætt reknum skólum.