132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:58]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafna því eindregið að einkareknir grunnskólar í Reykjavík hafi verið lagðir í einelti af meiri hlutanum í Reykjavík eða Reykjavíkurborg. Því fer víðs fjarri. Það hefur verið gert vel við skólana og þeir verið leystir úr þeirri fjárhagskreppu sem þeir höfðu komist í með mun hærri framlögum á hvern nemanda en áður var.

Gangi 23. gr. frumvarpsins eftir er það árás á sjálfsforræði sveitarfélaganna. Það er ekki hægt að réttlæta þá aðför að sjálfsforræði sveitarfélaga með því að lagaramma skorti utan um starfsemi einkarekinna grunnskóla. Þann lagaramma er hægt að sníða án þess að vega svo gróflega að forræði sveitarfélaganna.

Sérstaklega vekur það athygli og spurningar um hve ígrundað þetta frumvarp er þegar hæstv. ráðherra gengur í berhögg við forustu Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem er undir forustu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, leiðtoga sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg, sem hefur (Forseti hringir.) tekið eindregna afstöðu gegn þessu.