132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan í andsvari að hún gæti alltaf treyst því hvar Vinstri grænir stæðu í þessum málum, þeirra stefna væri skýr. Þetta er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra, Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur að skólakerfið eigi að vera sameign okkar allra. Við teljum að það eigi ekki að vera í einkaeign og eigi ekki að innheimta gjöld heldur eigi að reka það fyrir fjármuni úr sameiginlegum sjóðum. Þar með erum við ekki að segja að við viljum ekki fjölga tækifærum, auka valfrelsi eða fjölbreytni. Við teljum að það sé hægt að gera innan skólakerfisins.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess hversu mikla áherslu hún lagði á það hér áðan í umræðu um háskólastigið að hið opinbera eigi að greiða rausnarlega með háskólastúdentum einkarekinna háskóla: Finnst ráðherra það þá ásættanlegt að sú upphæð sem sveitarfélögin greiði með hverjum nemanda í grunnskóla sé verulega mikið lægri en landsmeðtal raunkostnaðar á hvern nemanda í opinberum skólum? Það er verulega mikið lægri (Forseti hringir.) upphæð en raunkostnaðurinn er sem á að koma fyrir hvern nemanda. Er það ásættanlegt?