132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:01]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, þetta er bara spurning um lífssýn, pólitíska skoðun. Ég fer ekkert ofan af því að það er alveg ljóst við hvaða pólitísku skoðanir er að etja þegar maður ræðir við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og félaga hennar í Vinstri grænum.

Ég er sannfærð um að einkareknu skólarnir á grunnskólastigi munu auka valfrelsi og fjölbreytni. Það er einu sinni þannig að við erum að reyna að styrkja þá, þetta er fyrsta skrefið til þess að styrkja þá í sessi og gera þeirra réttarstöðu betri. Ég velti því lengi fyrir mér hvort þetta væri rétta leiðin, hvort það ætti að vera eitthvert annað viðmið. En við erum að reyna að fara svipaðar leiðir og hafa verið farnar á Norðurlöndunum, í Noregi er t.d. kveðið á um að mig minnir 85% lágmarksframlag og það er verið að reyna að taka tillit til þessara sjónarmiða.

Við megum heldur ekki gleyma því að grunnskólinn er skylda en háskólinn ekki og mér finnst (Forseti hringir.) ekki hægt að bera þau skólastig algjörlega saman.