132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:04]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér nokkuð stórt og viðamikið mál en þó er það þeim annmörkum háð að ekki er um að ræða heildarendurskoðun á lögum um grunnskóla sem þó hefði verið nauðsynleg. Það er löngu orðið tímabært að þau lög séu endurskoðuð því að þau eru að uppistöðu til óbreytt frá 1974. Þrátt fyrir að sveitarfélögin hafi nú rekið grunnskólann frá 1996 hafa ekki verið gerðar breytingar á þessum lögum, einungis smálagfæringar. Hér er verið að leggja til allt of litlar breytingar. Hér hefði átt að ganga miklu lengra. Eins og fram kom í andsvörum áðan hefur hæstv. ráðherra ákveðið að láta fara fram heildarendurskoðun á grunnskólalögunum og það er með ólíkindum að þær litlu breytingar sem hér um ræðir skuli ekki geta beðið fram að því. Það er auðvitað búið að upplýsa það að ein breyting skiptir hér einhverju máli, þ.e. breytingin sem er á 23. greininni og hæstv. ráðherra talar um sem tímamótagrein og verulega breytingu.

Það er sérkennilegt að með svona miklum látum skuli reynt að keyra þá breytingu í gegn nú rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar, að það skuli ekki vera látið duga að leyfa sveitarfélögunum að ákvarða það, eins og hingað til, hvernig þessum málum er háttað. Það er afar sérkennilegt að heyra hæstv. menntamálaráðherra koma hér og segja að þetta tengist á engan hátt sjálfsforræði sveitarfélaga. Sveitarfélögin reka grunnskólana í landinu og með frumvarpi því sem hér liggur fyrir er verið að skikka þau til þess að greiða ákveðið lágmark með skólum sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögunum. Að vísu, eins og hæstv. ráðherra bendir á, geta sveitarfélögin sagt nei.

Ég trúi því ekki, herra forseti, að hæstv. ráðherra sé með þessu að segja við sveitarfélögin: Ja, ef þið treystið ykkur ekki til þess að greiða það sem hér er lögbundið skuluð þið bara segja nei. Það tel ég vera gífurlegt spor aftur á bak vegna þess að þessir skólar eiga auðvitað að vera til, en það á ekki að setja sveitarfélögin í þá stöðu að þau segi bara nei vegna þess að þau óttist að verið sé að auka útgjöld þeirra. Það er ekki rétt, hæstv. ráðherra, að það geti ekki þýtt aukin útgjöld sveitarfélaga ef mál verða með þessum hætti. Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli nemendafjölda og kostnaðar. Það getur vel verið að það kosti sama að reka skóla með 200 nemendum og 250 nemendum vegna þess að það getur dreifst þannig á bekkjardeildir að kennarafjöldi sé hinn sami, stöðufjöldi sé hinn sami og kostnaður sé hinn sami. Ef 50 nemendur eru aftur á móti komnir í annan skóla kostar það þar af leiðandi aukalega. Þetta verður hæstv. ráðherra að kynna sér betur. Hæstv. ráðherra hefði þurft að fara í ákveðinn skóla hjá sveitarstjórnarmönnum í sínum eigin flokki. Þeir þekkja þetta mætavel.

Það er því miður rangt hjá hæstv. ráðherra að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg hafi samþykkt þessi frumvarpsdrög. Það kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem ég sem betur fer er með hér í höndunum, að frumvarpsdrögunum hefur ekki verið breytt að ósk þeirra sem sátu í meiri hluta stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar umsögnin var gerð.

Virðulegi forseti. Það er þess vegna nauðsynlegt að lesa hérna beint upp úr bókun meiri hluta stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þeir sem skrifa undir eru Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson títtnefndur, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Björk Guðjónsdóttir og Björn Hafþór Guðmundsson. Það er að vísu rétt að taka það fram að þessir ágætu sveitarstjórnarmenn eru ekki öll flokkssystkini hæstv. ráðherra en mér sýnist ég geta fullyrt að meiri hluti þeirra sé það.

Hér segir, með leyfi forseta, og það er gott að taka eftir því:

„Það er sjónarmið okkar sem stöndum að samþykkt þessarar umsagnar að eftir breytingu þá sem lögð er til í umsögninni um 23. gr. frumvarpsdraganna sé ekki um að ræða skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti og sjálfsforræði sveitarfélaga.“

Frú forseti, „að eftir breytingu þá sem lögð er til í umsögninni um 23. grein frumvarpsdraganna sé ekki um að ræða skerðingu á“ o.s.frv.

Frú forseti. Sú breyting sem lögð er til í umsögninni er ekki í því frumvarpi sem við ræðum hér og það er meginmálið. Sú breyting hefur ekki náð hér fram. Ég vona, hæstv. ráðherra, að það hafi verið ætlunin að breyta því í þá átt, það er alveg ljóst að þá væri frumvarpið allt öðruvísi vegna þess að sú tillaga sem hér er lögð til — ja, það er nú gott, frú forseti, að ég finni þá nákvæmlega það ágæta orðalag — það er hér.

Tillagan er þannig að 23. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Grunnskólar sem hljóta löggildingu samkvæmt 1. mgr. eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Framlag skal ákveðið af sveitarstjórn og getur verið mismunandi eftir nemendafjölda og rekstrarumfangi skóla.“

Hvernig hljóðar svo þessi sama málsgrein í frumvarpinu sem við ræðum hér?

Það er svo, með leyfi forseta:

„Grunnskólar sem hljóta viðurkenningu skv. 1. mgr. eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í.“

Sama setningin, byrjar eins.

En síðan segir í frumvarpinu:

„Skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda. Útreikningur Hagstofu Íslands á kostnaði samkvæmt þessari málsgrein skal taka mið af verðlagsbreytingum.“

Frú forseti. Ef hæstv. ráðherra telur að það sé ekki verið að ganga á sjálfsforræði sveitarfélaganna með frumvarpsgreininni eins og hún liggur hér fyrir þá er mér illa brugðið. Hér hljóta, miðað við það sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að hafa átt sér stað mistök og er auðvitað algjörlega nauðsynlegt að þau séu leiðrétt hið allra fyrsta, því að munurinn á textanum sem lagður er til í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er auðvitað algjör. Munurinn er nákvæmlega sá að ef texti stjórnarinnar hefði verið hér inni þá er a.m.k. hægt að deila um það hvort gengið sé á sjálfsforræði sveitarfélaganna. Það er að vísu sett inn að skólarnir hafi rétt til þess að fá fjármuni en það er a.m.k. miklu styttra skref en stigið er í frumvarpinu. Ég vona að það megi leiðrétta þetta í störfum menntamálanefndar, að það sé orðið þannig hjá hæstv. menntamálaráðherra og í menntamálaráðuneytinu eftir atburði dagsins og atburði síðustu mánaða að þar hafi verið tekin upp önnur vinnubrögð, þ.e. að nú sé unnið með aðilum en ekki búið til stríðsástand.

Frú forseti. Það er forkastanlegt að farið sé í endurskoðun sem þessa, þó hún sé takmörkuð, án þess að hafa sveitarfélögin, sem reka grunnskólana í landinu, með í för. Það er algjörlega út úr öllu korti. Það er að vísu boðað að í heildarendurskoðuninni eigi sveitarfélög, kennarar og foreldrar að koma að málum og allt gott um það að segja. En það er ótrúlegt að gengið skuli fram með þeim hætti í þessu frumvarpi að hafa ekki fullt samráð við sveitarfélögin um jafnstóra þætti sem þessa. Ég átta mig ekki á því hvernig á því stendur að hæstv. ráðherra setur sig í þær stellingar að vera gegn framvarðarsveit síns eigin flokks í sveitarstjórnarmálum. Það er með ólíkindum að í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga skuli hæstv. ráðherra stilla sér upp gegn oddvita síns eigin flokks í höfuðborginni. Ég trúi ekki öðru, frú forseti, en hér hafi átt sér stað einhver mistök sem vonandi verða leiðrétt. Við urðum vitni að því fyrir ekki alls löngu að ráðherrar geta gert mistök. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi þó ekki lent í sama díkinu og hæstv. iðnaðarráðherra að misskilja sitt eigið frumvarp. En það er leið til þess að leiðrétta málið ef um misskilning er að ræða. Að minni hyggju er hér allt of langt gengið gegn sveitarfélögunum í landinu.

Það verður líka að vekja athygli á því að með þessu ákvæði er raunverulega verið að ganga í þveröfuga átt við það sem verið hefur að gerast í lögum undanfarin ár, þ.e. menn hafa verið að ganga í þá átt að auka sjálfsforræði sveitarfélaganna, draga úr lagaákvæðum og gera þau sjálfstæðari til ákvarðana. Hér er m.a.s. slík miðstýringarárátta að sett er inn ákvæði um að hæstv. menntamálaráðherra eigi að ganga svo langt að setja nánari reglur um tilhögun skólaaksturs, að vísu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Hvað er það sem rekur hæstv. menntamálaráðherra til slíkrar miðstýringar? Er sveitarfélögunum í landinu virkilega ekki treystandi til þess að skipuleggja sinn eigin skólaakstur? Hefur eitthvað gerst í þeim efnum sem bendir til þess að þau séu ekki hæf til þess? Ég er afar hissa á ákvæðum um aukna miðstýringu sem því miður eru fleiri.

Hins vegar er athyglisvert að í 14. gr. er m.a. verið að taka út ákveðna hluti, sem er vissulega til bóta, en það hefði mátt gera miklu víðar ef það hefði verið línan. Þau örfáu dæmi sem ég nefni benda því miður til þess að hér hafi kappið verið of mikið, forsjáin hafi gleymst og fólk hafi farið allt of geyst yfir í þeim ákafa sínum að auka hlut að því er virðist með tilgangi og yfirlýsingum hæstv. ráðherra, að auka hlut einkaskólanna á grunnskólastigi.

Hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni áðan ágætan skóla í Garðabæ sem starfar eftir svokallaðri Hjallastefnu og nefndi samninginn sem það ágæta sveitarfélag gerði varðandi rekstur skólans. Þar var ákvæði sem væri virkilega athyglisvert og fróðlegt að fá að heyra álit hæstv. ráðherra á, þ.e. að sveitarfélög setji það inn — og það gerði sveitarfélagið án nokkurra lagaboða þar um — að greiða skólanum þá upphæð sem að meðaltali var í skólum sveitarfélagsins, takið eftir, sem var í skólum sveitarfélagsins. Það er meira að segja gengið svo langt í frumvarpinu að ekki á að miða við viðkomandi sveitarfélag að meðaltali, nei, það skal miða við landið allt þó að við vitum að eðlilega er grunnskólinn afar misjafnlega dýr og þess vegna m.a. höfum við framlög úr jöfnunarsjóði. En Garðabær gerði samninginn um að greiða meðaltalið í sveitarfélagi sínu en setti það skilyrði, og ekki bara það skilyrði, mér skilst að þau séu fleiri, en m.a. það skilyrði að ekki mætti taka skólagjöld. Og hér erum við farin að ræða um allt aðra hluti en mér heyrist hæstv. ráðherra vera að tala um, en ég vona að hæstv. ráðherra sé sammála mér í því að með slíku erum við auðvitað að tala um allt, allt aðra hluti.

Annað skilyrði sem fylgdi líka, sem því miður er ekki í öllum þeim skólum sem reknir eru með þessu formi, þ.e. að tekið er við öllum nemendum. Einnig er tekið við þeim nemendum sem þurfa ákveðna sérþjónustu sem er ekki hin almenna þjónusta í skólunum. Það er auðvitað alveg ljóst að miklu auðveldara er að reka skóla, hvort sem það eru grunnskólar, framhaldsskólar eða háskólar, ef skólinn getur valið inn nemendur, þá er miklu auðveldara að draga úr kostnaði. Þetta vita allir sem hafa komið nálægt skólarekstri.

Þess vegna er nauðsynlegt að sveitarfélögin fái sjálf, og mér sýnist tillaga stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga vera í þá átt að reyna að ná einhverri málamiðlun í málinu. Mér sýnist það, vegna þess að í umsögninni kemur fram í byrjun að stjórnin er algjörlega á móti því að fara ekki í heildarendurskoðun, hún vill fara í heildarendurskoðun á grunnskólalögunum. Telur hins vegar fram þau atriði sem hæstv. ráðherra nefndi að verið er að auka hlut foreldra og nemenda að ákvarðanatöku sem jákvæða þætti. Þá er eiginlega allt upp talið, það er ekki fleira sem þeir í stjórninni finna jákvætt í þessu. Þeir vara síðan við þeirri auknu miðstýringu sem fram kemur í frumvarpinu og síðan kemur þetta stóra mál um 23. gr. Mér sýnist meiri hluti stjórnarinnar hafa verið að rétta fram sáttarhönd, hafi séð að þeir gætu ekki hindrað að frumvarpið færi til þingsins og hafi þess vegna verið að reyna að leggja fram málamiðlunartillögu um hvernig hægt væri að ná sátt án þess að ganga á sjálfsforræði sveitarfélaga.

Frú forseti. Ég skil ekki enn hvernig á því stendur að ráðuneytinu liggur svo á að ekki er einu sinni hægt að mæta þeirri sáttarhönd sem þarna er þó rétt fram af meiri hluta stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Minni hluti stjórnarinnar vildi ganga enn skemur og telur meira að segja að í þessari tillögu stjórnarinnar varðandi 23. gr. sé tekið á sjálfsforræði sveitarfélaganna líka. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni er vissulega hægt að færa rök fyrir því. En ég vil skoða tillögu meiri hluta stjórnarinnar sem ákveðna viðleitni til að ná sátt í málinu. Þess vegna verð ég að endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðherra hvort hér hafi ekki verið um mistök að ræða og hæstv. ráðherra vilji ná sátt í málinu. Hæstv. ráðherra hefur sýnt það að undanförnu að verulegur áhugi er til þess. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra vilji fara í stríð við sveitarfélögin í landinu, ég trúi því ekki að það hafi verið ætlunin. Það hlýtur að hafa verið góður vilji hjá hæstv. ráðherra að reyna að ná þessu áhugamáli sínu fram, þ.e. að styrkja stöðu þeirra skóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum, en ég trúi því ekki að svo mikið liggi við að hægt sé að fara í stríð við sveitarfélögin í landinu. Því trúi ég ekki þannig að ég verð enn að vona að hér sé um einhver mistök að ræða sem leiðrétt verði.

Frú forseti. Ræðutími minn styttist óðum, ég verð því að láta ýmsar athugasemdir bíða sem ég er með við einstakar greinar en við munum sinna þessu máli geri ég ráð fyrir að venju af mikilli vandvirkni í menntamálanefnd og þar mun ég koma þessu á framfæri. Þó er eitt sem ég get ekki látið hjá líða að nefna. Það er sú nafngift sem hér er valin. Ég verð að trúa því að hæstv. ráðherra sé líka reiðubúin og meiri hlutinn í menntamálanefnd að ná sátt um það. Mér sýnist orðalagið vera þannig að ákveðið hafi verið að fara algjörlega á hinn kantinn frá því sem var og það sé þar af leiðandi leið til að mætast einhvers staðar, vegna þess að það er náttúrlega ekki hægt að bjóða grunnskólunum í landinu sem reknir eru af sveitarfélögunum upp á að aðrir skólar séu sagðir sjálfstætt reknir grunnskólar.

Nú er það stefna velflestra sveitarfélaga í landinu að reyna að gera grunnskólann sem allra sjálfstæðastan og sums staðar hafa menn náð býsna langt í því. Það er því bara ekki hægt að bjóða þeim grunnskólum og um leið sveitarfélögunum upp á slíka nafngift. Ég er út af fyrir sig ekki með einhverja patentlausn á því en eins og hv. þingmenn hafa vonandi tekið eftir hef ég ætíð talað um grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. Einstaka sinnum hef ég líklega nefnt gamla orðið um einkaskóla, en ég er sammála því að það orð gengur ekki lengur vegna þess að það þurfa ekkert endilega að vera einkaskólar sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. Það geta verið skólar sem eru reknir af sjálfseignarfélögum og áhugafélögum, af hugsjónafólki af ýmsum gerðum og tegundum, sem er vissulega mjög jákvætt og sjálfsagt að leyfa.

Það sem er auðvitað athyglisverðast í þessu ef við skoðum flóruna almennt í gegn og þá þróun sem hefur átt sér stað mjög lengi, t.d. á leikskólum, þá hefur það oft verið hugsjónafólk frekar á vinstri kanti stjórnmálanna sem hefur talið ástæðu til að reka sína eigin leikskóla eftir ákveðnum stefnum og þetta finnst mér eðlilegt að sé til staðar. Það hefur aldrei hvarflað að nokkrum svo ég viti til að setja það í lög um leikskóla að sveitarfélögin muni borga ákveðin meðaltöl vegna þeirra. Sveitarfélögunum, ef þeim á annað borð er treyst til þess að sjá um rekstur leikskóla og rekstur grunnskóla, á að sjálfsögðu að treysta líka til þess að gera samninga við skóla sem eru reknir með mismunandi rekstrarformi. Það gengur ekki, frú forseti, að hæstv. ráðherra og forusta Sjálfstæðisflokksins hafi svona litla trú á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, að þeir þurfi að fara í gegnum Alþingi til að tryggja slíkt mál. Það eru auðvitað Reykvíkingar sem kjósa borgarstjórn sína og það er meiri hluti hennar sem ber ábyrgð á því hvernig grunnskólahald er í borginni og hvernig samningar eru við skóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. Það er ekki við hæfi, frú forseti, að ganga svo á rétt og á sjálfsforræði sveitarfélaganna að það snúist eingöngu um að hæstv. menntamálaráðherra hafi ekki trú á því að flokkur hennar komist í oddaaðstöðu í höfuðborginni.