132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:24]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem einkenndi ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar var fyrst og fremst afstöðuleysi og stefnuleysi gagnvart sjálfstætt reknum skólum eða einkaskólum, hvaða nafn við viljum svo sem gefa þeim, að hvergi kom fram skýr afstaða hans um að tryggja stöðu þeirra innan skólakerfisins. Það kom bara þetta hjal og tal sem er sífellt verið að grípa til að þetta sé miðstýring og sé gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. Ég hef margoft sagt að það er skoðun mín að þetta gengur ekki gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og ef hv. þingmaður trúir því ekki að flokksfélagar mínir í Reykjavík séu sömu skoðunar hvet ég hv. þingmann að kalla fyrir hv. menntamálanefnd formann Sambands íslenskra sveitarfélaga og spyrja hann um þessa afstöðu og fleiri frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins sem hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á og virðist fylgjast betur með hvað þseir segja en hans eigin flokksfélagar.

Það tal um að þetta sé miðstýring, ég skil ekki að verið sé að fella hluti eins og að auka öryggi barna varðandi skólaakstur undir miðstýringu. Þetta er niðurstaða og ábending frá umboðsmanni barna og þetta leiðir m.a. af umræðum sem áttu sér stað við sveitarfélögin og Árvekni og fleiri aðila varðandi öryggi barna í skólaakstri. Ég hefði einmitt haldið að hv. þingmaður, sem kemur og er fulltrúi landsbyggðarinnar hér í þingsal, fagnaði þessu ákvæði, því að það er ekki síst úti á landi sem skólaaksturinn er við lýði. Mér finnst það miður að verið sé að flokka þessi ákvæði undir miðstýringu sem stuðla að auknu öryggi barna innan skólans sem utan og verið er að auka aðkomu foreldra og tryggja aðkomu nemenda að ákveðnum þáttum.

Mér finnst þetta frekar vera flótti frá því að þora að taka afstöðu í máli og ég kalla eftir skoðunum hv. þingmanns gagnvart sjálfstætt reknum skólum. Vill hann treysta réttarstöðu þeirra (Forseti hringir.) eða ekki? Mér heyrist á málflutningi hans, herra forseti, að svo sé ekki.