132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:27]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Löngum hefur verið þekkt að reynt sé að snúa vörn í sókn og hæstv. ráðherra gerir tilraun til þess en kemst að sjálfsögðu ekki frá málinu vegna þess að greinilegt er að hæstv. ráðherra hefur ekki fylgst nægilega vel með ræðu minni. Það kom afskaplega skýrt fram af minni hálfu að ég tel að þessir skólar séu mjög æskilegir og þeir eiga að vera til staðar. Ég treysti hins vegar sveitarfélögunum til að gera samninga um slíkt. Það hefur sýnt sig, m.a. dæmið sem hæstv. ráðherra tók um Hjallastefnuskólann í Garðabæ, að hægt var að gera slíka samninga með gömlu lögunum þannig að það þarf ekki að vera ástæðan til að breyta þessu.

Ég vek því enn athygli á því að verið er að ganga á svig við sjálfsforræði sveitarfélaganna eins og ég sagði áðan. Því til viðbótar varðandi miðstýringaráráttuna var ég í raun að vitna til umsagnar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er með rekstur grunnskólans og þeir benda sérstaklega á þessa þætti.

Þeir segja, svo ég upplýsi hæstv. ráðherra örlítið meira um hvað segir í þessu á margan hátt ágæta plaggi, þegar bent er á ákveðna þætti og enda í raun umsögn sína varðandi 14. gr., ef ég man rétt, með leyfi forseta:

„Markmiðsgrein grunnskólalaganna ásamt aðalnámskrá sem síðan er nánar útfærð í starfsáætlun skóla ætti jafnvel að vera fullnægjandi í þessu efni.“

Þeir telja sem sagt að miðstýringaráráttan úr menntamálaráðuneytinu gangi allt of langt og á miklu fleiri sviðum en ég hef verið að nefna. Vegna tímaskorts komst ég ekki yfir allar þær athugasemdir sem ég hafði. En stefna mín er alveg kristaltær og þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það. Hins vegar frábið ég mér það að ráðherra kalli það sífellt hjal og tal þegar verið er að ræða um sjálfsforræði sveitarfélaganna vegna þess að það er mjög mikilvægt mál og við sem höfum starfað á sveitarstjórnarstiginu og höfum tekið þátt í því að reyna að efla sveitarstjórnarstigið lítum ekki á það sem eitthvert hjal og tal heldur mjög mikilvægt mál.