132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er einungis búið að flytja hér tvær ræður í þessu máli og strax kominn mikill hiti í umræðuna. Auðvitað er það alveg ljóst, sem hæstv. ráðherra segir: Þetta mál er verulega heitt pólitískt bitbein. Þetta er pólitískt úrlausnarefni sem við þurfum að takast á um. Ólíkir flokkar, fólk með ólík sjónarmið og ólíkar skoðanir á málum.

Ég, sem tala hér fyrir Vinstri hreyfinguna — grænt framboð, kom í andsvar við hæstv. menntamálaráðherra áðan og reyndi að spyrja spurninga sem hefðu getað leitt umræðuna og ættu að geta leitt umræðuna inn á þá braut að tala um skólagjöld í einkaskólum og mögulega misskiptingu sem slíkt gæti haft í för með sér meðal barna á grunnskólaaldri. Ég fór yfir það í örfáum orðum á hvern hátt Vinstri hreyfingin — grænt framboð sér fyrir sér skólakerfið. Við sjáum það fyrir okkur sem sameign. Við teljum að það sé affarasælast að hafa það gjaldfrjálst að öllu leyti. Við teljum ekki ásættanlegt að innheimta skólagjöld í grunnskólanum og reyndar hvergi annars staðar í hinu opinbera kerfi. Við teljum að það eigi að vera í opinberri eign eða í sameign okkar allra. Vera rekið fyrir fjármuni úr sameiginlegum sjóðum og höfnum því í raun og veru þessum hugmyndum til einkarekstrar. Það er ekki þar með sagt að við höfnum valkostunum og að við höfnum fjölbreytninni. Því það gerum við ekki.

Hæstv. ráðherra kom í svörum sínum áðan inn á Hjallastefnuskólann í Garðabæ. Ég get upplýst það hér að sjálf hef ég tekið þátt í að reka leikskóla fyrir börnin mín sem upphaflega var vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sá ekki sóma sinn í að hafa nægilegt framboð af barnaheimilisplássum. Svo að ég fór inn í kerfi, sem í raun og veru ég verð að mæla með, þetta er foreldrarekið kerfi. Leikskólinn á Ósi er foreldrarekinn og hann er enn þá rekinn sem sjálfstæður skóli, skóli sem hefur uppeldisstefnu Hjallastefnunnar að markmiði. Það var verulega skemmtileg lífsreynsla að taka þátt í að reka þann skóla. Ég veit alveg hvernig þau í Garðabæ hafa það núna í Hjallastefnuskólanum þar. Það er verulega ánægjulegt að horfa á hvernig Hjallastefnan blómstrar þar. En sá skóli er rekinn fyrir opinbert fé, hann er eingöngu rekinn fyrir fjármuni sveitarfélagsins. Eins og hæstv. ráðherra upplýsti hér áðan eru ekki tekin skólagjöld í skólanum. Það var skilyrði sveitarstjórnar fyrir því að skólanum yrði komið á laggirnar í sveitarfélaginu að ekki yrðu innheimt skólagjöld. Gott og vel. Skólinn er rekinn samkvæmt námskrá þannig að börnin eiga að geta klárað nám sitt og komist eðlilega inn í grunnskólakerfið þegar Hjallastefnuskólanum sleppir. Þannig að í sjálfu sér er ekkert verið að fara neitt á svig við aðalnámskrá í þessum skóla. Það er eingöngu verið að keyra uppeldisstefnu sem byggir á kynjaskiptingu og ákveðnum lögmálum sem óþarfi er að fara út í í löngu máli hér.

En í mínum huga er þessi skóli ekki einkaskóli í þeim skilningi að hann sé rekinn fyrir fé einhverra einkaaðila, einhverjir einkaaðilar ætli að hagnast á honum eða þurfi að innheimta há skólagjöld svo hægt sé að reka hann. Í mínum huga hafa sveitarfélögin þennan valkost. Sveitarfélög sem starfa á lýðræðislegan hátt eiga auðveldlega að geta rekið fjölbreytta flóru skóla sem þó eru sjálfstæðir og hafa heimildir til að reka þá uppeldisstefnu eða skólastefnu sem þeir kjósa. Ef þetta er hægt í Garðabæ, hvers vegna í ósköpunum er hæstv. ráðherra svona mikið í mun að breyta lögunum á þeim nótum sem hér er verið að gera? Við vorum í andsvörum við hæstv. ráðherra rétt áðan til að reyna að komast til botns í því en það liggja ekki fyrir svör. Hvers vegna telur ráðherrann svona nauðsynlegt að koma þessari breytingu sem er í 23. gr. í gegn með hraði? Hvers vegna getur þetta ekki beðið eftir heildarendurskoðuninni úr því það er opið fyrir þá möguleika sem eru til staðar í kerfinu nú þegar? Hvers vegna efnir hæstv. ráðherra ekki heldur til umræðu um skólamál almennt milli sveitarfélaga og hins opinbera, og kannar á hvern hátt er hægt að auka tækifærin, auka valfrelsið, auka fjölbreytnina innan þess kerfis sem við búum við í dag? Ef það er ekki meginaugnamið hæstv. ráðherra að fara að innheimta skólagjöld og fara að reka hér skóla fyrir „ríku börnin“, sérstaklega þar sem foreldrar sem hafa mikil efni geta greitt skólagjöld sem gerir það að verkum að það er hægt að búa til aðstöðu fyrir börn þeirra foreldra sem hafa eitthvað umfram, hefur eitthvað meira heldur en það sem boðið er upp á í opinberum skólum, hvers vegna er þá ekki hægt að hinkra með þetta?

Ég er þeirrar skoðunar að skólasamfélag sé í eðli sínu lifandi samfélag skólafólksins, nemendanna sjálfra, kennaranna, starfsfólks skólanna, foreldra barnanna, fjölskyldna þeirra. Ég tel að þetta lifandi samfélag eigi að vera í stöðugri umræðu við yfirvöld, við sveitarfélögin, við hið opinbera, við ríkið um það á hvern hátt sé hægt að auka og tryggja þetta öfluga kerfi. Það er að tryggja að valfrelsi sé til staðar í kerfinu. Það sé ólík flóra skóla, mikil fjölbreytni og fólk hafi innan hins opinbera kerfis mikið val. Þar gætum við hæstv. ráðherra, tekið á saman. Okkur greinir bara á um hver á að standa straum af kostnaðinum. Ef það er samfélagið, eins og er í Garðabæ með Hjallastefnuskólann, hvers vegna þarf þá þessa breytingu með hraði hér í gegn?

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan í andsvari við hv. þingmann Einar Má Sigurðarson, að þessir skólar væru kærkomnir valkostir. Og hún segir okkur í stjórnarandstöðunni ekki vilja heimila t.d. foreldrum þeirra barna sem þrífast illa innan hefðbundins skólakerfis þennan valkost. Þetta er auðvitað alrangt hjá hæstv. ráðherra og það er ekki ásættanlegt að hún stilli málunum svona upp. Við viljum tryggja öllum öfluga valkosti. En við í Vinstri hreyfingunni — grænu framboði teljum að það sé hægt að greiða þessa valkosti af opinberu fé. Þannig að ég vil fá umræðu um það hvernig hæstv. ráðherra sér þetta fyrir sér. Af hverju í ósköpunum má ekki bara búa við það kerfi sem við höfum núna? Þetta er bara spurningin um hvaðan peningarnir koma. Ég sé ekki að við þurfum að takast svona harkalega á um þessi mál ef það er hægt að búa til valkostina innan þess kerfis sem er til staðar núna. Það er líka dálítið skondið að heyra á máli hæstv. ráðherra hvernig hún er að reyna að hætta að tala um einkaskóla og farin að tala um sjálfstætt starfandi skóla. Menn taka eftir því að hæstv. ráðherra er að breyta tungutaki sínu í þessum efnum og ég held að það liggi eitthvað þar að baki. Kannski liggur það að baki að einkaskólar og hugtakið einkaskólar hefur í umræðunni, í hinni pólitísku umræðu, og þeim miklu átökum sem hafa verið í kringum þessa umræðu, fengið á sig neikvæðan blæ. Hvers vegna skyldi sá neikvæði blær vera kominn? Það er vegna þess að fólk úti í samfélaginu óttast að einkaskólar séu búnir til til að mismuna börnum. Það er það sem fólk vill ekki að eigi sér stað. Fólk vill að öll börn í samfélaginu geti staðið jafnfætis. Og að þeim sé ekki mismunað á grundvelli efnahags. Þetta er eitt af meginatriðum málsins mínum huga.

Ég ætla að fara síðan í aðra þætti. Mér finnst vera teikn á lofti í þessu frumvarpi sem mér líst alls ekki á. Eitt af þeim varðar ákvæði um ráðningu aðstoðarskólastjóra. Ég hafði punktað hérna hjá mér spurningu áðan til hæstv. ráðherra varðandi það hvort ákvæði um aðstoðarskólastjórann væri sett fram sem sparnaðarráðstöfun og ákvað að hætta við að bera spurninguna upp vegna þess að ég fékk í rauninni svar með því að lesa umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Sem er samt engin umsögn því í þeim kafla í frumvarpinu er bara vísað í einhverja greinargerð eða einhver ummæli menntamálaráðuneytisins. Þannig að í raun og veru má segja að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins neiti að kostnaðarmeta frumvarpið og vegna þess að það er ekki á forræði ríkisins heldur á forræði sveitarfélaganna þá vísar fjárlagaskrifstofan eingöngu á ummæli menntamálaráðuneytisins í þessum efnum. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög sjá að mestu um framkvæmd grunnskólalaga. Breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða ríkið því að óverulegu leyti og hafa að mati fjármálaráðuneytis ekki áhrif á útgjöld ríkisins. Menntamálaráðuneytið er á sömu skoðun.“

Síðan er vitnað til orða menntamálaráðuneytisins að því er virðist þar sem sagt er að menntamálaráðuneytið hafi metið áhrif frumvarpsins á útgjöld sveitarfélaganna og telji kostnaðaráhrifin óveruleg.

Í niðurlagi frásagnarinnar um aðstoðarskólastjórana segir hins vegar, með leyfi forseta:

„Þá telur menntamálaráðuneytið að ýmsar tillögur í frumvarpinu, svo sem ákvæði um ráðningu aðstoðarskólastjóra, aukinn sveigjanleika við framkvæmd kennslu, mat á námi og veitingu undanþágu frá námi, veiti skólastjórnendum aukið svigrúm og geti leitt til hagræðingar.“

Frú forseti. Við sem í þessum sal sitjum erum eldri en tvævetur. Við vitum auðvitað alveg hvað þetta orðalag um svigrúm og hagræðingu þýðir. Það þýðir að það eigi að draga úr kostnaði við rekstur skólanna. Þess vegna spyr ég: Á hvern hátt sér hæstv. menntamálaráðherra þetta aðstoðarskólastjóramál sem sparnaðaraðgerð? Hvernig er það hugsað? Ég sé ekki að það sé rökstuðningur fyrir því að skólarnir eigi allt í einu að hafa frjálst val um hvort það sé starfandi aðstoðarskólastjóri eða ekki. Þannig að ég vil fá frekari rökstuðning á nákvæmlega þeirri hugsun sem þar liggur að baki.

Í greininni sem fjallar um það mál, sem er 12. gr., þar segir að með þessari breytingu sé ekki við það miðað að núverandi stöður aðstoðarskólastjóra verði lagðar niður, heldur sé einungis verið að auka svigrúm sveitarfélaga til að haga rekstri og innra skipulagi grunnskólans eins og þau telji best henta.

Nú spyr ég: Hver er sú staða sem gæti komið upp innan skóla eða sveitarfélags sem leiddi til þess að ákveðið yrði að leggja niður stöður aðstoðarskólastjóra innan skóla? Það hlýtur að verða að koma einhvers konar fagleg eða málefnaleg útskýring frá hæstv. ráðherra hvað þetta atriði varðar.

Ég vil svo ítreka þær spurningar sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur lagt fram varðandi hvað liggi á, af hverju þetta mál geti ekki beðið eftir heildarendurskoðun sem er á næsta leiti eins og hæstv. ráðherra hefur sagt okkur að verði. Ráðherrann hefur gefið þær skýringar að hún hafi frestað endurskoðuninni vegna ástandsins eftir kennaraverkfall grunnskólakennara á síðasta ári. Það er svo sem góð og gild ástæða en ég sé ekki að þau atriði sem hér er verið að leiða í lög séu svo mikilvæg að það hasti svo að setja þetta í lög áður en heildarendurskoðunin fer af stað.

Ég vil líka spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða samráð hefur verið haft í fyrsta lagi við sveitarfélögin? Hv. þm. Einar Már Sigurðarson og hæstv. ráðherra tókust á um það áðan á hvern hátt sveitarfélögin hefðu komið að þessu máli eða hvort þetta væri sveitarfélögunum að skapi almennt eða ekki. Ég vil bara fá að heyra hvaða samráð hefur átt sér stað milli sveitarfélaganna og menntamálaráðuneytisins við samningu frumvarpsins. Mig langar líka til að fá að heyra hvort og þá hvaða samráð hafi átt sér stað milli menntamálaráðuneytisins og Kennarasambandsins, því að við skulum athuga það að kennarar eru sennilega langfjölmennasta fagstétt á Íslandi. Það hlýtur að verða að ítreka það, sem oft hefur verið sagt hér úr þessum ræðustóli, að breytingar á lögum sem varða skólakerfið og grunnskóla eiga auðvitað að gerast á þeim nótum að haft sé samráð við kennarastéttina og við samtök foreldra. Forráðamenn barnanna þurfa líka að fá að vera þátttakendur í þeirri umræðu og því meira sem fjallað er um lýðræði í samfélaginu og lýðræðislega umræðu því meiri þörf er á því að menntamálaráðuneytið og ráðuneytin öll temji sér þau vinnubrögð að tekið sé mið af sjónarmiðum úti í samfélaginu, sjónarmiðum þeirra sem eiga að vinna eftir viðkomandi lögum, því annað er auðvitað bara gerræði og ráðstjórn.

Um stefnumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli má hins vegar almennt segja að við erum á því að barnapólitík og skólapólitík sé verulega mikilvæg pólitík og það ríður á að við fjöllum málefnalega um þá þætti sem hér eru til skoðunar. Við vitum það jú að samfélagið sem við byggjum er byggt með þeim hætti að þar ráða fullorðnir mestu, samfélagið er allt hannað fyrir fullorðna og það þarf kjark og þor til þess að breyta því og fara að skoða hlutina aftur út frá sjónarmiðum barna. Ég held að nú sé full þörf á því og það er gott að geta notað tækifærið þegar grunnskólamálin eru í deiglunni og opið fyrir heildarendurskoðun þessa lagabálks, að skoða þá hvort við séum tilbúin til þess að fara inn í þá vegferð að breyta samfélaginu að einhverju leyti með því að sníða það frekar að þörfum barna. Mér finnst að það þurfi að hlusta betur á börn og virða þarfir þeirra í samfélaginu og ég held að mikilvægt sé í máli eins og þessu þar sem á að fara að breyta skólapólitíkinni í grundvallaratriðum að farið sé alla leið til barnanna til þess að skoða sjónarmið þeirra og skoðanir. Það þarf að gefa börnum og foreldrum aukin tækifæri til þess að taka þátt í því að skapa sinn veruleika og það á auðvitað ekki að gera slíkt bara til hátíðabrigða, mér finnst við hafa hér mjög gild tækifæri til þess að gera slíkt og það er ekkert sem réttlætir að það sé ekki gert.

Þess vegna held ég að breytingar af þessu tagi eigi að gerast hægt, þær eigi að gerast að höfðu mjög öflugu samráði og ég sé ekki í þeim orðaskiptum sem nú þegar hafa farið fram hér að svo hafi verið. Ég tel verulega skorta á, þegar frumvarpið er lesið í gegn, að nægilegt samráð hafi verið haft við hlutaðeigandi en það mun verða leitt í ljós þegar við förum yfir frumvarpið í menntamálanefnd.

Ég efast um að þetta geti farið á einhverjum miklum hraða í gegnum nefndina. Mér sýnist fyrstu taktarnir sem slegnir eru hér í umræðu um málið vera þess eðlis að hér sé um grundvallaratriði að ræða sem taki talsvert langan tíma fyrir okkur að kafa ofan í. Það þarf að skoða sjónarmið ýmissa og kanna málið út frá ólíkum sjónarhornum. Það erum við tilbúin til að takast á við í menntamálanefndinni. Ég vona að það verði öflug opinber umræða um málið líka. Ég geri ráð fyrir að kennarar skoði þetta frumvarp, foreldrar og börnin sjálf fái kannski aðeins líka að kynna sér þetta þannig að við getum vænst öflugrar umræðu um þetta alls staðar í samfélaginu. En ég get ekki að lofað einhverri flýtimeðferð í gegnum menntamálanefnd. Það sé ég ekki fyrir mér.