132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:51]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi aðstoðarskólastjóraákvæðið þá hefur verið bent á, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að það sé æskilegt og sérstaklega í litlum skólum, þ.e. 12 og upp í um 25 manna skólum, að ákveðið svigrúm sé veitt til þess að ráða ekki beint aðstoðarskólastjóra heldur að skólastjóri meti það hver af kennurunum gegni stöðu skólastjóra meðan hann er fjarverandi. Þarna er verið að koma til móts við sveitarfélögin, sérstaklega þau sem minni eru úti á landi varðandi rekstur skólanna og ég held að þetta sé líka í samræmi við það sem menn kalla nútímarekstur og svigrúm varðandi rekstur grunnskólanna. En ég vil líka ítreka að þetta er atriði sem ég hvet hv. þingmenn til þess að fara sérstaklega yfir í menntamálanefnd og skoða þá möguleika sem þetta ákvæði býður upp á.

Síðan vil ég koma að fjármögnuninni og þá erum við einmitt komin að þeirri stórpólitísku spurningu sem tengist frumvarpinu og það er það hvaða fjármagn eigi að fylgja barni í sveitarfélögunum. Ég velti því líka fyrir mér: Af hverju á barn í Reykjavík að líða fyrir það að það fái hugsanlega mun minni fjárhæðir inn í þann skóla sem það er að sækja af því að skólinn er rekinn á einkaréttarlegum grundvelli? Ég spyr: Af hverju? Hvers eiga börn í Reykjavík að gjalda meðan t.d. börn í Garðabæ hafa getað farið í Barnaskóla Hjallastefnunnar?

Ég skildi hv. þingmann þannig að henni hugnist sú leið sem hefur verið farin í Garðabæ, og þá spyr ég auðvitað: Af hverju hefur þessi leið ekki verið farin hér í Reykjavík, í því sveitarfélagi þar (Forseti hringir.) sem Vinstri grænir hafa haft töglin og hagldirnar ásamt Samfylkingunni? (Forseti hringir.) Af hverju ekki fyrst að Vinstri grænir vilja viðhalda fjölbreytni í skólakerfinu?