132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra svarar ekki spurningu minni en varpar fram annarri spurningu til mín. Ég spurði hæstv. ráðherra: Úr því að til er sveigjanleiki innan þessa kerfis til að reka skóla eins og Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ, sem er opinber skóli að mínu mati af því að hann er rekinn fyrir opinbert fé en ekki fyrir skólagjöld, hvers vegna nægir þá ekki sú lagagrein eða það lagaumhverfi sem við erum með í dag? Hvers vegna þurfum við að koma þessu hér í gegn með hraði, til hvers, hvaða breytingu er hæstv. ráðherra að innleiða hér? Ég vil fá svar við því fyrst.

Hins vegar varðandi spurninguna sem hún varpar fram til mín varðandi Reykjavík þá er ég ekki starfandi borgarfulltrúi í Reykjavík og ég get því ekki svarað spurningu hennar. Ég geri ráð fyrir að menntasvið Reykjavíkurborgar sé að vinna að því hörðum höndum að auka fjölbreytni í skólastarfi í Reykjavík, eftir því sem mér hefur skilist. Það er gert á faglegum forsendum og ég sé ekki annað en þar sé í vændum mjög spennandi tímar.

En eins og ég segi, hæstv. ráðherra á eftir að svara spurningu minni til hennar.