132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:55]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli þeim rökum að Barnaskóli Hjallastefnunnar sé opinber skóli. Hann er rekinn af einkaaðila þó að hann sé fjármagnaður af opinberu fé. Annars væri hv. þingmaður að segja að allar einkareknu læknastofurnar hér í sveitarfélaginu, hvort sem þær eru í Reykjavík eða annars staðar séu allt saman opinberar stofnanir. Auðvitað er það ekki þannig.

Það kemur einmitt sífellt að þeirri hugsun sem við sjálfstæðismenn höfum staðið fyrir og sjáum fyrir okkur, þ.e. að velferðarkerfið sé fjármagnað af hinu opinbera. Við teljum það vera mjög til bóta til þess að auka valkosti og fjölbreytni, t.d. í skólakerfinu, og möguleika á að fá einkaaðila með okkur til þess að reka skólana, líkt og gert hefur verið í Garðabæ. Það skiptir miklu máli hvernig við nálgumst hlutina og þetta eru ekki opinberar stofnanir.

Ég er hér með ársreikning fræðslumála í Reykjavík fyrir 2003. Ég rek auðvitað augun í þau framlög sem nemendur í einkaskólum fá hér. Árið 2002 voru þau 228 þúsund. Hver voru þau á nemanda í almennum grunnskólum í borginni? Þau voru 430 þúsund. Síðan árið 2003 eru þau 465 þúsund í almennum grunnskólum en 300 þúsund til einkarekinna skóla. Það er ekki nema von að þessir skólar, Landakotsskóli og Ísaksskóli, hafi verið að berjast í bökkum varðandi reksturinn af því að þeir mættu engum skilningi borgaryfirvalda í þá veru að það þyrfti að tryggja þeim ákveðinn rekstrargrundvöll og tryggja þeim réttarstöðu. Af hverju erum við að þessu? Til þess að auka valmöguleika barnanna okkar í skólakerfinu. Við erum að þessu fyrst og fremst vegna þess.