132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:21]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ósammála því að Reykjavíkurlistinn hafi staðið að aðför að einkareknum grunnskólum. Skólarnir lentu í ákveðnum fjárhagslegum vanda, sem margir skólar og mörg skólastig lenda í, en ég tel að þau mál hafi verið leyst með nokkrum sóma í fyrra, hvernig sem á því stóð að þau lentu í vandanum.

Reykjavíkurlistinn hefur gert margt mjög gott. Hann hefur gert annað sem er miður, í þessu tilfelli kannski brugðist of seint við. Ég veit það ekki. Ekki ætla ég að skrifa upp á öll verk kosningabandalags þriggja flokka í Reykjavík síðustu 12 ár. En í grundvallaratriðum hafa þeir gert ágætlega við skólana og leyst úr fjárhagsvanda þeirra með því að hækka verulega framlög til þeirra. Hvort það hefði mátt gerast fyrr er annað mál. Ég þekki í sjálfu sér ekki grundvöll samkomulagsins sem flokkarnir þrír náðu um það.

En ég er þessarar skoðunar og með henni stend ég. Ég tala fyrir henni burt séð frá samstarfi Samfylkingar við aðra stjórnmálaflokka í einhverjum af áttatíu og eitthvað sveitarfélögum landsins. Það er bara eins og gengur. Ég er ekki sammála því öllu. Sumu er ég sammála en öðru ekki. Það sem skiptir máli er að búa til ramma um rekstur skólanna þannig að þeir megi áfram vaxa og uppgangur þeirra verða með þeim hætti að eftir tiltekin ár verði mun hærra hlutfall íslenskra skólabarna í slíkum skólum. Ég held einfaldlega að valfrelsið og fjölbreytnin á grunnskólastigi geti af sér betra skólakerfi.

Við erum ekki að tala um samkeppni og einkavæðingu í neikvæðri merkingu heldur í jákvæðri merkingu, um að fólk hafi valfrelsi um ýmsar leiðir, ýmsar stefnur og ýmiss konar ólíka hugmyndafræði. Hjallastefnan fylgir ólíkri hugmyndafræði miðað við almenna opinbera skóla þótt ekki halli í neinu á opinberu skólana, sem langflestir held ég að séu fjarska fínir skólar, vel heppnaðir og vel reknir. Við höfum hina hefðbundnu hverfisskóla og til hliðar við þá vil ég sjá rísa ýmiss konar einkarekna grunnskóla.