132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:37]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með hluta af ræðu hv. þingmanns. Þannig vill til að hv. þingmaður var formaður í verkefnisstjórn um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Þar fór fram mikil umræða um samskipti ríkis og sveitarfélaga sem ég hélt að hefði kennt mönnum ýmislegt. Svo verður maður vitni að því að sá lærdómur hefur enginn verið.

Vandinn í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hefur verið vantraustið á milli aðila. Því miður kemur það fram í ræðu hv. þingmanns að full ástæða er til þess hjá sveitarstjórnarmönnum að vantreysta ríkinu. Hér kemur hv. þingmaður og segir að hann sé ekki sammála því að með frumvarpinu sé sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga skertur.

Frú forseti. Ég verð af þessu tilefni að fá að lesa örstuttan kafla úr áliti stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi þetta mál. Ég verð trúlega að skipta honum á milli andsvara en hef nú lesturinn, með leyfi forseta:

„Sambandið leggst hins vegar alfarið gegn því að lögbundin séu tiltekin lágmarksfjárframlög sveitarfélaga til einkarekinna grunnskóla með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 2. málslið 2. mgr. 23. gr. frumvarpsdraganna.“ — Eins og það hét þegar þeir gáfu umsögn sína. — „Sambandið telur að með sama hætti og það á að vera í ákvörðunarvaldi sveitarfélags að samþykkja eða synja um stofnun einkarekins skóla eigi það jafnframt að vera í ákvarðanavaldi sveitarfélags að ákveða framlag til reksturs þess skóla hverju sinni.

Sambandið telur að lögbinding á lágmarksframlagi til einkaskóla með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögunum sé frekleg skerðing á sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. Hliðstætt dæmi um grófa íhlutun í starfsemi og rekstur sveitarfélaga mátti áður finna í ýmissi löggjöf um verkefni sveitarfélaga en þau hafa nú nánast öll verið afnumin. Almennt hefur ríkt sátt um það sjónarmið að sveitarfélögin ættu sjálf að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð eins og fram kemur í 1. gr. (Forseti hringir.) sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.“