132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:43]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér má þakka fyrir að bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga var ekki lengri. Hann á ekki kost á að koma í þriðja sinn í andsvar og halda áfram lestrinum. Þessi bókun er afskaplega skýr og að mörgu leyti koma fram í henni skiljanleg viðhorf sveitarstjórnarmanna. En gegn þeirri skoðun kemur sú ábyrgð menntamálaráðuneytisins, menntamálaráðuneytið ber jú ábyrgð á því starfi sem fram fer innan skóla landsins, hefur það stjórnsýslulega hlutverk. Fyrr í dag fjölluðum við um frumvarp um breytingar á lögum um háskóla þar sem innleitt var ákveðið gæðakerfi, ef svo má segja, fyrir háskóla til að tryggja ákveðið viðmið.

Mér finnst ekkert óeðlilegt að í lögum sé kveðið á um sanngjarnt lágmark. Það er rétt að árétta að málið snýst einungis um ákveðið lágmark, að mati hæfustu manna og kvenna, sem þarf að vera til staðar til að slíkir skólar geti starfað. Hvaðan það lágmark kemur, frá sveitarfélögum eða öðrum aðilum, þurfa menn að geta sýnt fram á gagnvart menntamálaráðuneytinu og sveitarfélögum áður en heimildin er veitt.

Það má því segja að það sé ákveðinn kostnaður við að vilja fara þessa leið einkaskólanna, að verða að beygja sig undir það að þeir uppfylli ákveðin lágmarksskilyrði, alveg eins og heilsugæslustöð í einkaeign eða opinberri eign þarf að uppfylla lágmarksskilyrði um búnað. Útgangspunkturinn í því er sá að viðskiptavinirnir, hvort sem eru sjúklingar, nemendur eða aðrir slíkir sem til slíkra stofnana leita, (Forseti hringir.) hafi aðgang að lágmarksgæðum.