132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:45]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Einn mikilvægasti þátturinn í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar varðar aukna festu í starfsemi sjálfstæðra skóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögunum. Það er sá þáttur sem ég vil sérstaklega fjalla um í ræðu minni í dag.

Hér er lagt til að lögbundin verði lágmarksupphæð sveitarfélaga til reksturs þeirra að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og skal hún vera að minnsta kosti 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands, upp að 200 nemenda marki en 70% á hvern nemanda eftir það, eins og segir í frumvarpinu. Sveitarfélög geta hins vegar ákveðið að veita hærra hlutfall til sjálfstæðra skóla og þannig aflétt þörf þeirra til að setja á tiltekin skólagjöld eins og flestir þeirra þurfa í dag.

Ég tel að margir geti tekið undir að réttur viðurkenndra sjálfstæðra skóla á grunnskólastigi til tiltekinna framlaga frá stjórnvöldum vegna nemenda sinna sé slíkt sanngirnismál að ekki ætti að þurfa að kveða á um það í lögum. Þannig er t.d. ekki gerður munur á greiðsluþátttöku sjúklings eftir því hvort hann sækist í þjónustu heilsugæslustöðvar sem er einkarekin eða ríkisrekinnar heilsugæslustöðvar. Hvort tveggja varðar almannaþjónustu sem greidd er af opinberu fé. Það er mín skoðun að sjálfstæðir skólar eigi að fá sambærilega upphæð til reksturs fyrir hvern nemanda og skólar sem reknir eru á vegum sveitarfélaga. Það verður því að segja að þetta ákvæði kom af illri nauðsyn og m.a. í ljósi skilningsleysis vinstri manna í sveitarstjórnum, t.d. í Reykjavík og Hafnarfirði, á gildi sjálfstæðra skóla. Til að takast á við slíkar aðstæður virðist vera þörf á að setja slíkt ákvæði í lög og í þeim tilgangi að vernda rétt borgaranna fyrst og fremst. Því er það skref sem nú er tekið í rétta átt. Því til viðbótar vil ég benda á að í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að sjálfstæðir skólar eigi nokkurn rétt á að fá stofnkostnað greiddan að neinu leyti. Þannig að það er ekki nóg með að sjálfstæðir skólar fái lægra fjárframlag til reksturs heldur fá þeir engan stuðning til að setja skólann á stofn og með þeim búnaði sem þarf.

Sjálfstæðir skólar, eins og Ísaksskóli og Landakotsskóli, hafa starfað hér í Reykjavík áratugum saman í góðri samvinnu við stjórnvöld og aðra skóla. Það var hins vegar ekki fyrr en grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaga að þeir mættu algeru skilningsleysi frá hendi R-listans hér í Reykjavík undir forustu Samfylkingar í skólamálum. Raunveruleikinn er sá að vinstri menn hafa með verkum sínum lýst sig mótfallna einkareknum grunnskólum þó þeir í orði, m.a. hér í dag, telji sig vera meðmælta. Með afstöðu sinni hafa þeir sjálfir staðið fyrir mismunun nemenda eftir efnum foreldra með því að veita minna fjármagn til einkarekinna skóla en skóla á vegum sveitarfélaganna þannig að stjórnendur hafa þurft að krefjast sérstakra skólagjalda frá foreldrum og forráðamönnum barna. Ég benti á það í andsvari fyrr í dag við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson að það er einmitt í sveitarfélaginu Garðabæ, þar sem sjálfstæðismenn eru ráðandi, sem engin skólagjöld hafa verið sett á enda er greitt að fullu fyrir nemanda í skóla Hjallastefnunnar. En það er hins vegar annað sem blasir við hér í Reykjavík varðandi Ísaksskóla og Landakotsskóla.

Samfylkingin gefur reyndar mjög misvísandi skilaboð um hvernig hún vill haga samstarfi opinberra aðila og einkaaðila um rekstur samfélagsþjónustu. Þeir hafa áttað sig á því að slíkar hugmyndir hafa verið hafðar í hávegum hjá félögum þeirra, sósíaldemókrötum í nágrannalöndum okkar. Hins vegar virðist Samfylkingin eiga erfitt með að útfæra þessar hugmyndir í reynd hér á landi og erfitt er að átta sig á hver afstaða flokksins til slíkra hugmynda er, hvort heldur í orði eða á borði. Ýmsir þingmenn, eins og t.d. talsmaður Samfylkingarinnar í menntamálum, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, vill styðja við og auka framboð sjálfstæðra skóla. Aðrir þingmenn virðast tvístígandi eða því mótfallnir. Sams konar staða er innan flokksins um afstöðu til aukins samstarfs stjórnvalda og einkaaðila um rekstur í heilbrigðisþjónustu. Þar talar varaformaður flokksins, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, af mikilli sannfæringu um gildi þess og sama má segja um hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Stuðningur annarra flokkssystkina þeirra við þær hugmyndir hefur hins vegar ekki farið hátt, sem hefur vakið grun um að þeir séu einir á báti í þeim efnum. Í þessum málum, eins og svo mörgum, talar Samfylkingin í austur og vestur, út og suður. Engin ein rödd. Hún er ýmist með eða á móti eins og er þeirra háttur þessi missirin. Meðan slík óreiða er í hugmyndafræði Samfylkingar er stefna hennar ótrúverðug. Það sést m.a. á fylgistapi flokksins á síðustu mánuðum. Flokkurinn verður að gefa skýr skilaboð um stefnu sína en það hefur mistekist.

Síðan heyrðum við í dag algerlega nýjan skilning í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstri grænna. Hjá henni kom fram sá skilningur að ef ríkið borgar fyrir rekstur einhvers skóla, eins og sjálfstæðra skóla, þá sé það opinber stofnun. Þetta er í rauninni dálítið merkileg afstaða. Þetta þýðir í rauninni að það er ekki mikill skoðanamunur á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks í þessum efnum og ætti að þýða að þeir tveir flokkar ættu ekki að hafa neitt á móti því að einkaaðilar taki að sér rekstur skóla, rekstur heilbrigðisþjónustu eða rekstur annarrar almannaþjónustu svo framarlega sem það er greitt af opinberu fé. Ef þeir kalla það hvort sem er opinberar stofnanir þá ætti það að duga þannig að niðurstaðan er sú sama.

En um gildi sjálfstæðra skóla hefur mikið verið fjallað. Margrét Pála Ólafsdóttir sagði t.d. í grein sem birtist í Morgunblaðinu 26. janúar sl. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Hvarvetna í Evrópu starfa skólar á bæði leik-, grunn- og framhaldsskólastigi sem ekki tilheyra hinum opinbera rekstri í skólakerfinu, heldur eru reknir á sjálfstæðum grunni af einstaklingum, foreldrum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða stofnunum. Þessir „frjálsu“ eða „sjálfstæðu“ skólar hafa verið litrík viðbót í skólaflóru hvers lands þar sem þeir hafa ávallt borið fram skýra hugmyndafræði og nýjar skólastefnur og verið valkostur fyrir börn og foreldra sem hafa kosið aðrar uppeldis- og menntunaráherslur en opinbera kerfið hefur staðið fyrir. Sem dæmi um uppeldishugsjónir þessara skóla má nefna Waldorf-skólana sem starfa í anda Rudolfs Steiners, skóla trúfélaga og safnaða auk skóla sem leggja áherslu á t.d. listir, tungumál og fleira. Á Íslandi er skemmst að minnast Landakotsskóla kaþólska safnaðarins sem á yfir 100 ára sögu að baki eða Skóla Ísaks Jónssonar sem ruddi brautina fyrir nýjungar í lestrarkennslu yngri barna fyrir 80 árum. Að sjálfsögðu geta margir skólar innan hefðbundins kerfis starfað á grunni afmarkaðrar skólastefnu og gera það — en áratuga reynsla hjá hundruðum evrópskra skóla hefur sýnt að þegar faglegt og rekstrarlegt forræði helst í hendur, tekst skólum að ganga lengra í þróunar- og nýbreytniátt og þannig hafa sjálfstæðu skólarnir ávallt verið veigamikill valkostur fyrir þá foreldra og kennara sem kjósa aukna fjölbreytni í skólastarfi.“

Virðulegi forseti. Sjálfstæður rekstur leikskóla hér á landi er mun algengari en í grunnskólum. Þannig eru um 10% barna í sjálfstæðum leikskólum en aðeins tæpt 1% grunnskólanemenda. Þetta hlutfall er í raun hlægilegt í ljósi þess að t.d. eru 13% allra grunnskólanema í Danmörku í sjálfstæðum skólum og í Kaupmannahöfn einni er þetta hlutfall 25%. Í ræðu á ráðstefnu á vegum Samtaka sjálfstæðra skóla, sem haldin var um síðustu helgi, talaði danskur sérfræðingur í skólamálum. Hann sagðist ekki vera í vafa um að tilkoma sjálfstæðu skólanna í Danmörku hefði aukið námsgæði og knúið opinberu skólana til að bæta sig og þar með hafi samkeppnin um nemendur borið tilætlaðan árangur. Og kröfurnar eru líka miklar til sjálfstæðu skólanna sem þurfa að hafa skýra stefnu. Haft var eftir honum, með leyfi forseta, eftirfarandi:

„Þegar foreldrar eru að velja skóla fyrir börnin sín vilja þeir skýr svör um markmið og störf skólans frá skólastjórnendum. Þetta er sáraeinfalt. Foreldrarnir ætlast til að skólinn standi við það sem lofað er. Þeir vilja gæði og þau felast í því að skólinn standi við sitt.“

Það er alveg ljóst af lýsingu þessa virta skólamanns að aukið hlutfall sjálfstæðra skóla er ákveðinn drifkraftur í starfsemi grunnskóla og með þessu móti eru foreldrar jafnframt virkjaðir með öflugri hætti en hefur verið í opinberum skólum hér á landi og það ætti að vera afar eftirsóknarvert.

Í fyrrnefndri grein sinni í Morgunblaðinu segir Margrét Pála Ólafsdóttir um hið lága hlutfall sjálfstæðra skóla hér á landi, með leyfi forseta:

„Hið opinbera hefur nánast tryggt sér einokun á uppeldi og menntun barna og ungmenna, einokun sem á öllum öðrum samfélagssviðum þykir óviðunandi hemill á fjölbreytni og frjálsa valkosti. Þessi opinbera einokun er horfin úr atvinnulífinu, viðskiptalífinu og svo mætti lengi telja en á sviði uppeldis og menntunar eru nemendur enn í áskrift hverfisskólanna og víða mikill ótti við að gefa nemendum og foreldrum lausan taum til að velja sér skóla. Þessu þarf að breyta.“

Undir þessi orð þessa ágæta frumkvöðuls á sviði menntunarmála og reksturs sjálfstæðra skóla tek ég. Því er það frumvarp sem hér er til umræðu til mikilla bóta og styður enn betur undir þá þróun að auka fjölbreytni og val í menntakerfinu samfélaginu til hagsbóta. Að lokum vil ég gera tvö atriði til viðbótar að umfjöllunarefni mínu í þessari ræðu, annað varðar aukið svigrúm til undanþágu frá skólasókn nemenda vegna reglubundins náms eða íþróttaiðkunar utan skóla. Ég fagna þeirri breytingu, þ.e. hún á við um fleiri nemendur og er í samræmi við hugmyndir sem koma fram í því frumvarpi sem verður rætt hér á eftir, æskulýðslög, og í samræmi við tillögur nefndar sem gerði úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi um að nýta þátttöku utan skólastarfs, t.d. í atvinnulífi og félagsstörfum eða í sjálfboðastarfi, til námseininga. Með því móti er verið að viðurkenna ákveðið gildi tómstundastarfs, þess starfs sem fer fram utan hins hefðbundna skólastarfs, og viðurkenna gildi þess til að auka þroska ungmenna og gera það eftirsóknarverðara fyrir þau að taka þátt í slíku starfi.

Hitt atriðið var einnig tillaga nefndar sem gerði úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi og kemur til umræðu hér á eftir, það var að lögfesta ákvæði um nemendaráð. Í dag er þetta heimildarákvæði en með þessu frumvarpi eru nemendaráð lögfest. Ég er alveg sannfærð um að þetta er þess eðlis að það mun efla virkni nemenda í skólanum og efla lýðræðisvitund þeirra. Þetta tengir jafnframt saman þau lög sem við erum nú að fjalla um, grunnskólalögin, og æskulýðslög sem verða til umfjöllunar hér á eftir. Grunnhugmyndin er hin sama, að virkja nemendur til þátttöku og efla lýðræðisvitund þeirra, auka sveigjanleika í skólakerfinu, samflétta það æskulýðs- og tómstundastarfi betur en hingað til hefur verið gert.

En ég kom hingað upp til að ræða um það ákvæði í þessu frumvarpi sem varðar sjálfstæða skóla og ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Ég tel að það geti orðið mikil lyftistöng fyrir skólastarf hér á landi og geti orðið til að auka virkni nemenda og foreldra og efla menntun ungmenna samfélaginu til bóta.