132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[18:03]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að orðanotkunin var ekki gildishlaðin. Orðin eru eingöngu notuð svona eins og gengur og gerist. En við þurfum að vanda okkur við þetta. Ég held að hugtökin í gömlu lögunum, einkaskóli og einkarekinn skóli, eigi í raun ekki heldur við. Auðvitað getur verið margs konar rekstrarform á þessum skólum og óvíst að þeir séu endilega einkareknir, það getur verið félagsrekstur og ýmsar útgáfur á því. Þetta er mál sem bíður menntamálanefndar að finna út úr, hvaða orð eigi að vera þarna.

Menn reka þessa skóla á ýmsa vegu en ég veit ekki nein dæmi þess hér á landi að þeir séu reknir sem hagnaðarfyrirtæki. Þessar stofnanir eru reknar án þess að menn fái af þeim beinan hagnað. Sums staðar er gengið svo langt að setja þau skilyrði, eins og í Garðabæ, sem ég tel til fyrirmyndar, að þar séu engin skólagjöld. Það er auðvitað umræða sem ætti að fara í hér, hvort okkur þyki eðlilegt að greidd séu skólagjöld í þessum skólum að auki. En því fylgir sú eðlilega krafa að tekið sé við öllum nemendum og allir hafi jafnan aðgang.

Ég er ekki viss um að leiðin sem hér er farin, eins og komið hefur fram í máli mínu, sé endilega hin rétta. Ég lít svo á, fyrst menn notast við orð eins og sjálfstæði, að sveitarfélögin eigi líka að vera sjálfstæð. Það ætti að vera reglan. Það hefur sýnt sig að það hefur ekki hindrað menn í að stofna skóla. Við höfum nýjasta dæmið um það í Garðabæ þannig að sveitarfélögunum er treystandi. Þau hafa staðið sig mjög vel og ég veit eiginlega engin dæmi þess að svo hafi ekki verið. Almannarómur hermir að sveitarfélögin hafi staðið sig mjög vel í rekstri grunnskólanna. Þess vegna skil ég ekki þetta mikla vantraust frá hæstv. menntamálaráðherra í garð sveitarfélaganna, að treysta þeim ekki lengur fyrir rekstri grunnskólans.