132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[18:05]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að það að hæstv. menntamálaráðherra sé tilbúin til að auka vægi einkarekinna eða sjálfstæðra skóla í skólakerfinu feli í sér vantraust á rekstur sveitarfélaganna á grunnskólanum Ég held einmitt að hæstv. menntamálaráðherra hafi í huga að slík samkeppni og slíkur samanburður á milli opinberra skóla og sjálfstæðra muni leiða til þess að gæði skólastarfs aukist. Enda hefur það komið fram, m.a. hjá hv. þm. Björgvini Sigurðssyni í dag. Það hefur komið fram hjá Margréti Pálu Ólafsdóttur kennara, sem mikið hefur verið vitnað til í dag. Það hefur komið fram hjá flestum þeim fagaðilum sem hafa tjáð sig um málið.

Svo ég haldi áfram með hugtökin, þótt hv. þingmaður sé reyndar horfinn úr salnum, ég veit nú ekki hvort hann er nokkuð að hlusta á mig, þá benti hann einmitt á að hugtakið „sjálfstæðir skólar“ gæti náð yfir sjálfseignarstofnanir, félagsrekstur, einkarekstur o.s.frv. Eiginlega mætti segja að eftir því sem hv. þingmaður talaði lengur fannst mér sjálfstæðir skólar verða nokkuð gott hugtak yfir sjálfseignarstofnanir, félagslegan rekstur og einkarekstur, sem aðgreining frá opinberum rekstri. Við höfum talað um sjálfstæðan rekstur annars vegar og hins vegar opinberan rekstur. Ég varð því bara skotnari í þessu hugtaki „sjálfstæðir skólar“ eftir því sem hv. þingmaður talaði lengur. (Gripið fram í.) Það greinir starfsmenn sjálfstæðra skóla frá hinum að þeir þiggja laun sín frá (Forseti hringir.) rekstraraðilanum en hinir frá stjórnvöldum.