132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Æskulýðslög.

434. mál
[18:29]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til æskulýðslaga en aðdragandi frumvarpsins er sá að á haustmánuðum árið 2003 ákvað þáverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, að setja á fót nefnd til að semja drög að nýrri löggjöf um æskulýðsmál. Í nefndina voru skipuð: Ásta Möller hjúkrunarfræðingur og alþingismaður, sem var skipuð formaður nefndarinnar, Erlendur Kristjánsson deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, Karitas H. Gunnarsdóttir skrifstofustjóri, Ólafur Jóhannsson sóknarprestur og Stefán E. Bjarkason framkvæmdastjóri. Í erindisbréfi nefndarinnar er tekið fram að nefndin hefði m.a. til hliðsjónar við vinnu sína skýrslu og tillögur nefndar er var unnin á árinu 2003, úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi fyrir menntamálaráðuneytið, mjög athyglisverð skýrsla.

Nefndin skilaði menntamálaráðherra frumvarpsdrögum í febrúar 2005. Frumvarp þetta byggir að meginstefnu til á tillögum nefndarinnar og felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um æskulýðsmál, nr. 24/1970.

Virðulegi forseti. Helstu atriði frumvarpsins eru þessi:

Í fyrsta lagi er skipulag æskulýðsmála sett fram með skýrari hætti í frumvarpi þessu en gert er í gildandi lögum um æskulýðsmál. Eins og áður fer menntamálaráðherra með yfirstjórn æskulýðsmála, hann skipar Æskulýðsráð og úthlutar úr Æskulýðssjóði að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Þá er lagt til það nýmæli að ráðherra stuðli að því að fram fari æskulýðsrannsóknir en sú skylda hvíldi áður á Æskulýðsráði.

Í öðru lagi er lagt til að með frumvarpinu verði lögfestur sá megintilgangur laganna að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi. Þá er kveðið á um að í öllu starfi með þeim skuli velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Þetta tel ég afar brýnt verkefni.

Þá er einnig lagt til að lögfest verði ákvæði um starfsskilyrði í æskulýðsstarfi, sbr. 10. gr. frumvarpsins, þar sem m.a. er kveðið nánar á um hæfisskilyrði þeirra sem starfa með börnum og ungmennum. Vísa ég nánar til ítarlegrar umfjöllunar í athugasemdum frumvarpsins við greinina.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lögð til nokkur breyting á hlutverki Æskulýðsráðs frá gildandi lögum. Þannig er meiri áhersla nú lögð á stefnumarkandi og ráðgefandi hlutverk þess gagnvart málaflokknum og starfsemi þess afmörkuð betur en áður. Í stað þess að ráðið skipuleggi og samræmi opinberan stuðning við æskulýðsstarf í landinu verði það nú stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum og geri tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum. Auk þess veiti það áfram umsagnir um mál er varða æskulýðsstarfsemi og leitist við að efla starfsemi félaga, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga og stuðli þannig að áframhaldandi samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál. Þá er lagt til að ráðið efni áfram til funda og ráðstefna um æskulýðsmál eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum og taki þátt í erlendu samstarfi í æskulýðsmálum eftir nánari ákvörðun menntamálaráðherra. Að lokum er lagt til að ráðið stuðli áfram að þjálfun og menntun forustufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða og sinni öðrum þeim verkefnum sem menntamálaráðherra kann að fela því.

Síðan er rétt að geta þess að það er lögfest ákvæði um Æskulýðssjóð. Hann starfar nú samkvæmt reglum frá árinu 2004 sem ekki hafa lagastoð.

Frú forseti. Ég hef nú farið yfir meginefni frumvarpsins og ég bendi hv. þingmönnum á ítarlega umfjöllun í frumvarpinu sjálfu um einstakar greinar þess og ítarlegan inngang um þróun æskulýðsmála hér á landi og erlendis. Ég hvet hv. þingmenn einnig til þess að kynna sér fyrrnefnda skýrslu sem var gerð á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi árið 2003.

Ég legg að lokum til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.