132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Æskulýðslög.

434. mál
[18:33]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess að nokkuð er liðið á daginn hef ég hugsað mér að þær örfáu athugasemdir sem ég vil gera kæmu fram í stuttu andsvari.

Ég velti fyrir mér ákvæði 5. gr., þ.e. að velja eigi fulltrúa samkvæmt tilnefningu æskulýðssamtakanna samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Fróðlegt væri að heyra hvaða hugmyndir eru þar á ferðinni. Æskulýðssamtök eru býsna mörg og koma víða við sögu og spurning hvernig staðið verður að því vali.

Varðandi 10. gr. væri eðlilegt að skoða sérstaklega í menntamálanefnd hvort eðlilegt sé að setja frekari skilyrði um þá sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi. Í þessum tillögum er gert ráð fyrir að þeir séu lögráða, hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfans. Það er spurning hvort ekki væri eðlilegra að hafa þar forgang fyrir það fólk sem hefur lagt sérstaklega fyrir sig menntun á þessu sviði, þ.e. að sinna tómstundastörfum. Ég held að eðlilegt sé að menn velti því fyrir sér í menntamálanefndinni.

Varðandi æskulýðsrannsóknir þá eru þær brýnar og mér sýnist eðlilegt að setja þær í þetta far fremur en að hafa það eins og verið hefur. Þá kemur hins vegar upp sama spurningin. Í fimm manna ráðgjafarnefnd á að sitja einn fulltrúi samkvæmt tilnefningum æskulýðssamtaka. Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvernig sá eini fulltrúi verði valinn af æskulýðssamtökum. Hver á að tilnefna þann fulltrúa? Hvaða ferli á það að vera? Væri kannski eðlilegra að fjalla um það í lögunum hver þetta yrði eða hvernig sá fulltrúi verði valinn, t.d. í reglugerð eins og gert er í 5. gr.?

Frú forseti. Ég taldi eðlilegt að þetta kæmi fram við 1. umr. Ég geri ráð fyrir því að við förum nákvæmlega yfir málið í nefndinni. Þetta er heildarendurskoðun á æskulýðslögum, sem er markverðara skref en stigið var varðandi grunnskólalögin.