132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Æskulýðslög.

434. mál
[19:13]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fjarveru hæstv. menntamálaráðherra, sem þurfti að fara af þingi vegna annarra starfa, langar mig að svara í nokkrum orðum því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns.

Hv. þingmaður nefndi samráð við félög fatlaðra. Hv. þingmaður nefndi Ný-Ung, ungliðahreyfingu Sjálfsbjargar; Puttalinga og ungmennadeild Blindrafélagsins o.s.frv. Þessir aðilar voru kallaðir á fund nefndarinnar sem gerði úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks og framlag þeirra var afar mikilvægt. Ég á von á að þegar frumvarpið verður sent til umsagnar fái m.a. þeir aðilar sem kallaðir voru til nefndarinnar á sínum tíma frumvarpið til umsagnar. Það er því ljóst að þeir voru með taldir.

Varðandi stuðning við frjáls félagasamtök þá er það rétt, að þau byggjast mikið á sjálfboðastarfi en jafnframt hefur sýnt sig að mikilvægt er að þau fái ákveðna festu fyrir starfsemi sína, t.d. með launuðum starfsmanni. Þar kemur til stuðningur ríkis og sveitarfélaga. Það kom fram í máli mínu áðan að samkvæmt skýrslunni fór á árinu 2001 einn milljarður til félags- og tómstundastarfa á vegum sveitarfélaga fyrir utan íþróttirnar. Hins vegar fóru sex milljarðar inn í þetta starf þegar íþróttastarfið var talið með, þar á meðal til bygginga. Í félags- og tómstundastarf utan íþróttastarfs fer því einn milljarður á vegum sveitarfélaga á árinu 2001 en stór hluti af því fer til eigin starfsemi sveitarfélaga sem má alls ekki misvirða. En ákveðinn hluti fer í að styðja starfsemi frjálsra félagasamtaka í heimabyggð.

Stuðningur ríkisins er hins vegar hugsaður til landssamtaka æskulýðsfélaga.