132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Uppbygging álvera í framtíðinni.

[15:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það liggur fyrir og hefur gert lengi að það er áhugi hjá fyrirtækinu Alcan að stækka álverið í Straumsvík. Nú hefur verið farið fram á samningaviðræður um orkuverð vegna þeirrar framkvæmdar. Annað liggur ekki fyrir.

Það liggur líka fyrir að Alcoa hefur áhuga fyrir að reisa álver á Norðurlandi og er að leita eftir samningum um það. Það liggur enn fremur fyrir að fyrirtækið Century hefur áhuga fyrir að reisa álver í Helguvík.

Mér finnst af hinu góða að slíkur áhugi sé fyrir hendi og mér finnst það af hinu góða að það sé áhugi í viðkomandi byggðum á að auka atvinnu á því svæði. Síðan verður að koma í ljós hvort samningar takast. Það er að mínu mati ljóst að það ræðst ekki síst af því hvort hægt verði að skaffa rafmagn til þessara fyrirtækja. Það liggur alveg ljóst fyrir að það mun taka alllangan tíma.

Þegar þetta liggur síðan ljósar fyrir þarf að raða því upp og sjá hvernig það rúmast í efnahagslífi okkar. Ég tel alls ekki tímabært að fullyrða neitt um það.

En mér finnst mjög undarlegt að á Alþingi skuli menn vera svona andvígir því að þessi umræða fari fram, nánast andvígir því að þessi sveitarfélög leiti eftir auknum atvinnutækifærum og vilja ekki gefa mönnum ráðrúm til að fara yfir það. (Gripið fram í: Er það hægt?) Það er margt hægt, já, ef vilji er fyrir hendi. Ekki kannski allt en það er margt hægt, en það verður að vera einhver vilji.

Að því er varðar Kyoto-bókunina skal ég koma að því í seinna svari mínu vegna þess að ég hef ekki tíma til þess núna.